Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni er alþjóðasamningur sem fjallar um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra nýtingu hennar og sanngjarna og jafna skiptingu gæða sem verða til við nýtingu erfðaauðlinda. Samningurinn var lagður fyrir á Umhverfisráðstefnunni í Ríó 1992 og tók formlega gildi 29. desember 1993. Útfærsla samningsins fer aðallega fram með aðgerðaáætlunum einstakra ríkja um vernd og nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni. Aðildarlönd eiga auk þess að skila skýrslum um innleiðingu samningsins.

Árið 2000 var Cartagena-bókunin sem fjallar um líföryggi tekin upp en hún fjallar um mögulegar hættur vegna erfðabreyttra lífvera á grundvelli varúðarreglunnar. Bókunin tók gildi þegar 50 ríki höfðu undirritað hana árið 2004.

Árið 2010 var Nagoya-bókunin sem fjallar um erfðaauðlindir og nýtingu þeirra tekin upp.

Ísland undirritaði samninginn 1992 og Alþingi staðfesti hann árið 1994. Ísland hefur ekki undirritað bókanirnar.

Tenglar