Rangárþing eystra er sveitarfélag í Rangárvallasýslu. Það var stofnað 9. júní 2002 með sameiningu Austur-Eyjafjallahrepps, Vestur-Eyjafjallahrepps, Austur-Landeyjahrepps, Vestur-Landeyjahrepps, Fljótshlíðarhrepps og Hvolhrepps. Helstu atvinnuvegir eru ferðaþjónusta og landbúnaður.
Helsta þéttbýli í Rangárþingi eystra er Hvolsvöllur, en auk þess er vísir að þéttbýli á Skógum undir Eyjafjöllum. Vesturmörk sveitarfélagsins eru við Eystri Rangá, en austurmörkin við Jökulsá á Sólheimasandi. Markarfljót rennur sunnan við Fljótshlíð út í sjó nálægt Landeyjahöfn þar sem styst er að sigla til Vestmannaeyja. Þórsmörk er í Rangárþingi eystra norðan við Eyjafjallajökul. Vesturhluti Mýrdalsjökuls er líka í sveitarfélaginu.