Ragnheiður Bragadóttir |
---|
|
Fædd | 1956 |
---|
Störf | Prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands |
---|
Ragnheiður Bragadóttir (f. 1956) er prófessor í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands.
Ferill
Ragnheiður fæddist í Reykjavík 10. maí 1956. Hún lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík vorið 1976[1] og embættisprófi (cand. juris) í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 1982.[2] Þá lagði hún stund á framhaldsnám í refsirétti, afbrotafræði og refsipólitík við Kriminalistisk Institut við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn 1982-1983 og hlaut til þess styrk frá danska ríkinu. Hún stundaði nám í afbrotafræði á meistarastigi við lagadeild Háskóla Íslands á haustmisseri 1983.
Ragnheiður var dómarafulltrúi við sakadóm Reykjavíkur 1984 og fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1984-1985.[2] Hún var kennari í refsirétti við Fangavarðaskólann 1985-1991 og Lögregluskóla ríkisins 1989-1994.[3] Árið 1984 hóf Ragnheiður stundakennslu í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands, varð aðjúnkt 1985, lektor 1989, dósent 1995 og prófessor í lögfræði frá 1. janúar 2000, fyrst íslenskra kvenna.[4]
Ýmis störf og verkefni
Ragnheiður hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Háskóla Íslands sem utan og setið í ýmsum stjórnum. Hún hefur verið formaður náðunarnefndar dómsmálaráðuneytisins frá 1993[5], var í stjórn Lagastofnunar Háskóla Íslands 2005-2016, þar af formaður stjórnar 2013-2016, í rannsóknanámsnefnd lagadeildar 2005-2010, námsnefnd lagadeildar 2003-2007, formaður meistaranámsnefndar lagadeildar í umhverfisfræðum 2001-2005, í kennslumálanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands frá 2003-2008, í stjórn og úthlutunarnefnd Aðstoðarmannasjóðs Háskóla Íslands 2004-2009, og í fyrstu stjórn Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands 1990-1992, auk ýmissa starfshópa á vegum Háskólans um margvísleg málefni. Hún er formaður Sakfræðifélags Íslands frá 2009 og sat í prófnefnd verðbréfamiðlara 1993-1996.[3][6] Á háskólaárunum var hún í ritstjórn Úlfljóts, tímarits laganema, 1978-79.
Ragnheiður hefur tekið virkan þátt í norrænu samstarfi á fræðasviði sínu og var fulltrúi Íslands í Norræna sakfræðiráðinu (Nordisk Samarbejdsråd for Kriminologi, NSfK) 1998-2012[7], varaformaður 2007-2009 og formaður 2010-2012 og hafði ráðið þá skrifstofu við Háskóla Íslands.[8] Í formannstíð Ragnheiðar var m.a. haldið upp á 50 ára afmæli NSfK á Íslandi og var gefið út veglegt afmælisrit að því tilefni, Nordic Criminology in Fifty Years, sem hún ritstýrði.[9]
Rannsóknir og helstu ritverk
Ragnheiður á að baki langan kennslu- og ritferil og hefur birt bækur, fjölda bókarkafla og fræðiritgerða, bæði hér heima og erlendis, auk skýrslna og vinnu við lagafrumvörp. Helstu rannsóknarsvið hennar eru: Refsiréttur, almennur hluti og sérstakur, kynferðisbrot og önnur brot gegn konum og börnum, umhverfisrefsiréttur, viðurlög og viðurlagapólitík. Síðastliðin 20 ár hefur hún stundað umfangsmiklar rannsóknir á löggjöf og dómaframkvæmd í kynferðisbrotamálum. Um það efni hefur hún skrifað fjögur grundvallarrit: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (2018), Nauðgun - Ritröð Lagastofnunar Háskóla Íslands nr. 14 (2015), Kynferðisbrot – Dómabók (2009) og Kynferðisbrot - Ritröð Lagastofnunar Háskóla Íslands nr. 3 (2006)[10], auk fjölmargra greina og bókarkafla hér heima og erlendis. Hún samdi frumvarp er varð að núgildandi ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot (2007).[11] Af bókum Ragnheiðar um önnur efni má nefna: Kennslubók í refsirétti fyrir Lögregluskóla ríkisins (1995) og Íslenskur umhverfisrefsiréttur (1988).[12]
Ragnheiður er mjög virkur þátttakandi í norrænu og alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og hefur m.a. dvalið við rannsóknir við lagadeild háskólans í Kaupmannahöfn, Max-Planck-Institut für ausländisches und internationales Strafrecht í Feiburg im Breisgau í Þýskalandi, lagadeild háskólans í Cambridge á Englandi og Boalt Hall School of Law, University of California, Berkeley, USA.
Af norrænum rannsóknarverkefnum sem Ragnheiður hefur átt frumkvæði að og stjórnað má nefna tvö verkefni á vegum NSfK: Miljøstrafferet og retspolitik i de nordiske lande (2010-2012) sem fjallar um löggjöf sem veitir umhverfinu refsivernd[13], og Straf for seksualforbrydelser i Norden (2012) sem fjallar um lagaákvæði um nauðgun á Norðurlöndum og hvernig refsing er ákveðin fyrir nauðgunarbrot.[14] Þá tók Ragnheiður þátt í norrænni rannsókn á löggjöf um vændi á Norðurlöndum (Prostitutionslovgivning i de nordiske lande) og birtust niðurstöðurnar í Nordisk Tidsskrift for Kriminalvidenskab (2005), og rannsókn á viðurlögum utan stofnana á Norðurlöndum (Samfundssanktioner i Norden), sjá Nordisk Tidsskrift for Kriminalvidenskab (2001). Af alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem Ragnheiður hefur tekið þátt í má nefna: Alþjóðlegt rannsóknarverkefni um umhverfisrefsirétt, unnið á vegum Max-Planck-Institut für ausländisches und internationales Strafrecht, Freiburg im Breisgau, Þýskalandi. Niðurstöður birtust í bókinni: Umweltstrafrecht in den nordischen Landern. Arbeiten zum Umweltrecht 10 (1994); evrópskt rannsóknarverkefni um refsiábyrgð stjórnmálamanna, sjá grein í bókinni Criminal Liability of Political Decision-Makers – A Comparative Perspective (2017) og samnorrænt rannsóknarverkefni sem fjallar um réttarreglur um refsilögsögu á Norðurlöndum en niðurstöður rannsóknarinnar birtust í tveimur bókum: Criminal Jurisdiction – A Nordic Perspective (2014) og Strafrechtliche Jurisdiktion – Eine nordische Perspektive (2017).
Frá árinu 1999 hefur Ragnheiður verið einn af ritstjórum Nordisk Tidsskrift for Kriminalvidenskab (NTfK)[15], Journal of Scandinavian Studies in Criminology and Crime Prevention 1999-2003 og í ritnefnd Nordic Journal of Criminology[16] frá 2018. Ragnheiður hefur haldið fyrirlestra um rannsóknarefni sín á fjölmörgum alþjóðlegum, norrænum og innlendum ráðstefnum og málþingum.[3]
Einkalíf
Ragnheiður ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Ragnheiður Gunnarsdóttir, bankaritari og húsmóðir (f. 1933) og Bragi Hannesson, lögfræðingur, bankastjóri Iðnaðarbanka Íslands hf. og forstjóri Iðnlánasjóðs (f. 1932).[17] Systur hennar eru Ásdís, kennari (f. 1958) og Bryndís, píanókennari (f. 1968).[18] Ragnheiður er gift Bjarna Kristjánssyni, viðskiptafræðingi og framkvæmdastjóra (f. 1956).[19][20] Dætur þeirra eru Ragnheiður (f. 1983) og Unnur (f. 1994).[21]
Heimildir
- ↑ Háskóli Íslands. Ragnheiður Bragadóttir. Skoðað 12. júní 2019: https://www.hi.is/starfsfolk/rb
- ↑ 2,0 2,1 Lögfræðingatal 1736-1992. Iðunn, Reykjavík 1993
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Ferilskrá“ (PDF). Sótt 26. júní 2019.
- ↑ Viðtal í Morgunblaðinu 23. janúar 2000. Sótt af: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=132521&pageId=1957603&lang=is&q=Ragnheiður%20Bragadóttir%20prófessor
- ↑ Náðunarnefnd. Sótt af: https://www.stjornarradid.is/raduneyti/nefndir/nanar-um-nefnd/?itemid=e82c1364-4214-11e7-941a-005056bc530c
- ↑ Who´sWho in the World, 2011, bls. 303.
- ↑ Heimasíða Norræna sakfræðiráðsins (Scandinavian Research Council for Criminology) Sótt 26. júní 2019 af: http://nsfk.org/
- ↑ Sjá ársskýrslu NSfK 2012. Sótt 26. júní 2019 af: https://docplayer.dk/32300119-Nordisk-samarbejdsraad-for-kriminologi-2012-islands-universitet-101-reykjavik-island-hjemmeside-raadsleder-ragnheidur-bragadottir.html
- ↑ Lögmannablaðið, 4. tbl. 16. árg. 2010, bls. 6-7.
- ↑ Heimasíða Lagastofnunar. Sótt 26. júní 2019 af: https://lagastofnun.hi.is/3_ritrod_lagastofnunar_kynferdisbrot Geymt 26 júní 2019 í Wayback Machine
- ↑ Sótt af heimasíðu Alþingis. Sótt 26. júní 2019 af: https://www.althingi.is/altext/133/s/0020.html
- ↑ Ritaskrá. Sótt 26. júní 2019 af: https://ugla.hi.is/pub/hi/simaskra/ritaskra_en/664d18080663.pdf
- ↑ Háskóli Íslands. Lagastofnun. (2014). Miljøstrafferet og retspolitik i de nordiske lande - Lokið 2011. Sótt 26. júní 2019 af: http://lagastofnun.hi.is/miljostrafferet_og_retspolitik_i_de_nordiske_lande_lokid_2011 Geymt 26 júní 2019 í Wayback Machine
- ↑ University of Iceland. The Law Institute. (e.d.). Straf for seksualforbrydelser i Norden. Sótt 26. júní 2019 af: https://lagastofnun.hi.is/straf_for_seksualforbrydelser_i_norden_0 Geymt 26 júní 2019 í Wayback Machine
- ↑ Heimasíða Nordisk Tidsskrift for Kriminalvidenskab: https://tidsskrift.dk/index.php/NTfK
- ↑ Heimasíða Taylor & Francis. Sótt af: https://www.tandfonline.com/loi/scri20
- ↑ European Biographical Directory, 8, 1989-1990.
- ↑ Lögfræðingatal 1736-1992. Iðunn, Reykjavík 1993.
- ↑ Æviskrár MA-stúdenta VI, 1974-1978. Bókaútgáfan Skrugga, Reykjavík 2007.
- ↑ Viðskipta- og hagfræðingatal 1877-1996. Þjóðsaga ehf. Reykjavík 1997.
- ↑ Morgunblaðið. (2016, 10. maí). Þurfum umfjöllun um tengsl siðferðis og laga. Sótt 26. júní 2019 af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1595360/