Réttarheimspeki

Réttarheimspeki er sameiginleg undirgrein heimspekinnar og lögfræðinnar, sem fjallar um eðli og heimspekilegar undirstöður laga og lagasetningar.

Í réttarheimspeki er meðal annars spurt hvort til sé náttúruréttur eða náttúruleg réttindi, sem menn hafa óháð lagasetningu, eða hvort allur réttur sé settur réttur, þ.e. ákveðinn með lagasetningu og háður henni. Réttarheimspekingar spyrja einnig hvert sambandið er milli lagasetningar og siðferðis, um eðli og réttlætingu refsingar og hvernig lög ættu að vera.

Réttarheimspeki er náskyld siðfræði og stjórnspeki. Nánast allar hliðar réttarheimspekinnar eiga rætur að rekja til grískrar heimspeki, einkum rita forngríska heimspekingsin Platons og til stóuspekinnar. Meðal annarra mikilvægra hugsuða úr sögu réttarheimspekinnar má nefna Aristóteles, Tómas af Aquino, Thomas Hobbes, Hugo Grotius, John Locke, Jeremy Bentham, John Austin, Georg Jellinek, Lon L. Fuller, H.L.A. Hart, Hans Kelsen, John Rawls, Joseph Raz, Leslie Green og Ronald Dworkin