Páll Melsteð (amtmaður)

Páll Melsteð
Páll Melsteð (1791 - 1861). Mynd eftir Sigurð Guðmundsson, málara
Fæddur31. mars 1791
Dáinn9. maí 1861
Þekktur fyrirAmtmaður í Vesturamti 1849-61
TitillAmtmaður
TrúMótmælandi
MakiFyrri: Anna Sigríður Stefánsdóttir (1815)
Síðari: Ingileif Jónsdóttir Bachmann (1846)
BörnPáll Melsteð yngri, Sigurður Melsteð, Hallgrímur

Páll Melsteð (31. mars 17919. maí 1861) var íslenskur amtmaður, sýslumaður og alþingismaður.

Páll var fæddur á Völlum í Svarfaðardal, sonur séra Þórðar Jónssonar prests þar og seinni konu hans Ingibjargar Jónsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1809, var skrifari Stefáns Þórarinssonar amtmanns á Möðruvöllum 1809-1813 en sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk lögfræðiprófi þaðan 1815.

Hann varð þá sýslumaður í Suður-Múlasýslu til 1817 og síðan í Norður-Múlasýslu til 1835 og sat á Ketilsstöðum á Völlum. 1835-1849 var hann sýslumaður í Árnessýslu og bjó þá í Hjálmholti. Árið 1849 var hann skipaður amtmaður í vesturamtinu og gegndi því embætti til æviloka. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1847-1849, þjóðfundarfulltrúi 1851 og var þá forseti þjóðfunarins. Hann var konungsfulltrúi á Alþingi 1849-1859.

Páli er svo lýst að hann hafi verið fríður sýnum og manna gjörvilegastur, bráðgáfaður, hygginn og gætinn, manna stilltastur, fámáll og nokkuð dulur í skapi.

Fyrri kona hans (2. nóvember 1815) var Anna Sigríður Stefánsdóttir (20. maí 1790 – 8. júní 1844), dóttir Stefáns Þórarinssonar amtmanns og konu hans, Ragnheiðar Vigfúsdóttur Scheving. Á meðal fjölmargra barna þeirra voru Páll Melsteð sagnfræðingur, sem fæddist árið 1812, áður en faðir hans fór til náms í Kaupmannahöfn, og Sigurður Melsteð alþingismaður. Síðari kona Páls (5. september 1846) var Ingileif Jónsdóttir Bachmann (6. maí 1812 – 13. mars 1894). Þau áttu einn son, Hallgrím landsbókavörð.

Á yngri árum var Páll í kunningsskap við Skáld-Rósu Guðmundsdóttur og talið er að hinar frægu ástavísur hennar "Augað mitt og augað þitt, og þá fögru steina!... " o.s.frv. séu ortar til hans. [1] Það er þó ekki vitað fyrir víst.

Tilvísanir

  1. „Augu eða auga?; grein í Lesbók Morgunblaðsins, 11. desember 2004“.

Heimildir