Ludwig Erichsen eða Ludvig Erichsen (1766 – 7. maí 1804) var dansk-íslenskur embættismaður sem var amtmaður í Vesturamti Íslands og settur stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti um tíma.
Ludvig var sonur Jóns Eiríkssonar konferensráðs og konu hans Christine Marie Lundgaard og var fæddur og uppalinn í Kaupmannahöfn. Hann lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og gerðist starfsmaður rentukammersins í Kaupmannahöfn. Hann var skipaður í jarðamatsnefndina sem komið var á fót 18. júní 1800 og fór þá til Íslands og ferðaðist mikið um landið með öðrum nefndarmönnum.
Ludvig gaf rentukammerinu skýrslu um það 1802 að hann teldi stjórnarfar á Íslandi afar bágborið og talar þar meðal annars um löggæslu í Reykjavík, sem sé lítil sem engin og segir að vaktari bæjarins sé drykkfelldur og hirðulaus og slökkvibúnaður nánast enginn, afbrot séu hvorki kærð né fyrir þau refsað og agaleysi sé ótakmarkað. Í kjölfar skýrslunnar var Ludvig þann 29. desember 1802 skipaður amtmaður í Vesturamti en skyldi jafnframt starfa áfram í jarðamatsnefndinni. Rasmus Frydensberg var skipaður bæjarfógeti í Reykjavík árið eftir og voru þá jafnframt fyrstu lögregluþjónarnir ráðnir til starfa.
Þann 10. júní 1803 var Ólafi Stephensen stiftamtmanni og amtmanni í Suðuramti vikið frá embætti um stundarsakir meðan rannsókn fór fram á embættisstörfum hans og var Ludvig settur til að gegna embættum hans á meðan. Hann lést þó tæpu ári síðar og var þá Stefán Þórarinsson amtmaður í norður- og austuramtinu settur til að gegna öllum þeim embættum sem Ludvig Erichsen hafði haft á sinni könnu. Hann gerði þó Ísleif Einarsson yfirdómara að umboðsmanni sínum syðra. Trampe greifi var svo skipaður amtmaður í Vesturamti um haustið og tók við sem stiftamtmaður og amtmaður í Suðuramti þegar Ólafi Stephensen var veitt lausn 1806.
Heimildir