Orkneyjajarlar

Orkneyjajarlar voru upphaflega norskir jarlar sem fóru með völd í Orkneyjum, Hjaltlandi og hluta af Katanesi og Suðurlandi nyrst á Skotlandi. Jarlarnir voru löngum nokkuð sjálfstæðir, en stjórnuðu þó Orkneyjum og Hjaltlandi í umboði Noregskonungs. Sum þeirra svæða sem þeir réðu yfir á meginlandi Skotlands þágu þeir síðar í lén af Skotakonungi. Um skeið réðu jarlarnir einnig Suðureyjum.

Norskir Orkneyjajarlar

Fyrsti Orkneyjajarlinn var Rögnvaldur Eysteinsson Mærajarl (í Noregi). Haraldur hárfagri gaf honum jarlsnafn þar í sonarbætur, en Rögnvaldur vildi ekki setjast að í eyjunum og gaf Sigurði bróður sínum jarlsdæmið sama dag. Jarlarnir sem á eftir fylgdu, allt til 1232, voru afkomendur þeirra Rögnvalds og Sigurðar. Af Rögnvaldi voru einnig komnir Rúðujarlar, eða Hertogar af Normandí.

Um 1195 tóku Orkneyingar þátt í uppreisn gegn Sverri konungi, og sendu til Noregs herflokk sem kallaður var „Eyjarskeggjar“. Sverrir vann sigur á þeim og refsaði Orkneyingum með því að slá eign sinni á helstu höfðingjasetur í eyjunum. Jarlinn varð þá formlega norskur lénsmaður og Hjaltland tekið undan hans stjórn. Upp úr því fór jarlsdæmið að veikjast verulega.

Norska jarlsdæmið í Orkneyjum var oft undir samstjórn bræðra eða frænda.

Skoskir jarlar undir norsku krúnunni

Árið 1231 dó karlleggurinn af norsku jarlaættinni út. Árið eftir fórst skip með öllum helstu höfðingjum eyjanna, sem voru á leið frá Noregi. Hákon gamli Noregskonungur brá þá á það ráð (1236) að skipa sem jarl mann af skoskri höfðingjaætt (Angus-jarlar), sem átti ættir að rekja til Orkneyjajarla, og fóru afkomendur hans með völd í Orkneyjum a.m.k. til 1321. Þá voru tengslin við Noreg farin að trosna, og fór svo að Orkneyjar komust undir yfirráð Skotakonungs.

Angus-jarlar

Skoskir jarlar

Strathearn- og Sinclair-jarlar

Orkneyjajarlar á síðari öldum

Hertogi af Orkneyjum (1567)

Stewart-jarlar, önnur endurreisn jarlsdæmisins (1581)

Orkneyjajarlar, endurreistir í þriðja sinn (1696)

Líklegur arftaki, Oliver St John, greifi af Kirkjuvogi (f. 1969)

Tengt efni

Heimildir