Lénsmaður var maður sem þáði lén af lénsherra (oftast konungi eða keisara). Lénsmenn urðu þannig háðir lénsherranum, sem gat svipt þá léninu. Að jafnaði fylgdu ákveðnar skyldur og þá miðað við að tekjur af léninu nægðu til að standa undir þeim. Þetta fyrirkomulag er kallað lénsskipulag eða lénsskipan (lénsveldi).
Í fornum norskum lögum var lén stundum kallað veizla, þ.e. aðstaða sem konungur veitti stuðningsmönnum sínum, og lénsmaður þá stundum kallaður veizlumaður (lénsjörð = veizlujörð).
Sá sem þáði land að léni af Noregskonungi, var kallaður lendur maður (ft. lendir menn). Það er dregið af sögninni "að lenda einhvern", þ.e. "að láta hann fá land (að léni)". Noregskonungar byggðu vald sitt talsvert á stétt lendra manna, með því að veita dyggustu stuðningsmönnum sínum helstu höfuðbólin. Þessi yfirstétt lendra manna hafði svo ákveðnar skyldur, t.d. við landvarnir, löggæslu, skattheimtu o.fl. Lendir menn voru einna æðstir í hirð Noregskonungs, og var aðeins jarl ofar í virðingarröð.
Fyrst er getið um lenda menn á dögum Ólafs helga (d. 1030). Magnús lagabætir beitti sér fyrir lagabreytingu um 1276, þar sem titillinn barón var tekinn upp um lenda menn. Sonur Magnúsar, Hákon háleggur, lét svo leggja niður barónstitilinn árið 1308.
Heimildir
- Norges gamle love V, o.fl..