Ontario

Ontario
Fáni Ontario Skjaldarmerki Ontario
(Fáni Ontario) (Skjaldarmerki Ontario)
Kjörorð: Ut Incepit Fidelis Sic Permanet (Latína) (Trygg hún hófst, trygg verður hún áfram)
Kort af Ontario
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg Toronto
Stærsta borgin Toronto
Fylkisstjóri Elizabeth Dowdeswell
Forsætisráðherra Doug Ford (Ontario PC)
Svæði 1.076.395 km² (4. Sæti)
 - Land 917.741 km²
 - Vatn 158.654 km² (14,8%)
Fólksfjöldi (2016)
 - Fólksfjöldi 14.063.256 (1. Sæti)
 - Þéttleiki byggðar 13,4 /km² (1. Sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning 1. júlí 1867
 - Röð Fyrst
Tímabelti UTC-5/-6
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 107
 - Öldungadeild 24
Skammstafanir
 - Póstur ON
 - ISO 3166-2 CA-ON
Póstfangsforskeyti K L M N P
Vefur www.ontario.ca
Gróft kort af fylkinu.
Þróun landamæra Ontaríó og Kanada.
Toronto.
Níagara-fossar

Ontario (eða Ontaríó) er fylki í miðausturhluta Kanada. Það er fjölmennasta fylki Kanada og það næststærsta að flatarmáli, á eftir Quebec.

Samfélag

Höfuðborg Kanada Ottawa og stærsta borg landsins, Toronto, eru í fylkinu. Aðrar borgir sem nefna má eru: Mississauga, Kitchener, London, Oshawa, Hamilton og Windsor. Íbúar eru rúmar 14 milljónir (2016).

Flestir íbúar Ontaríó eru af evrópskum uppruna, til að mynda breskum, írskum og ítölskum. Meira en fjórðungur þeirra tilheyrir ýmsum minnihlutahópum. Enska er helsta tungumálið, en um 5% tala frönsku sem móðurmál og 11% eru tvítyngdir með ensku og frönsku.

Trúar-/lífsskoðunarhópar eru: kaþólskir: 31,4%, ótengdir trúarbrögðum: 23,1%, mótmælendatrúar: 21,1%, aðrir kristnir söfnuðir: 9,7%, múslimar: 4,6%. hindúar: 2,9%, rétttrúnaðarkirkjan: 2,4%, gyðingar: 1,5%, síkar: 1,4% og búddistar: 1,3%.

Söguágrip

Frumbyggjar höfðu verið í árþúsundir á svæðinu áður en franskir og breskir landkönnuðir komu þangað í byrjun 17. aldar. Frakkar áttu í erfiðleikum með landvinninga þar sem Írókesar gerðu bandalag við Breta. Frumbyggjar fengu að kenna á farsóttum Evrópubúa eins og mislingum og bólusótt. Bretar stofnuðu verslunarstaði við Hudson-flóa og urðu áhrifamiklir. Árið 1791 varð hluti af því svæði sem nú er Ontaríó, þ.e. svæðið vestur af Saint Lawrence-fljóti, að hluta til að Efra-Kanada, og sá hluti sem er austan fljótsins að Neðra-Kanada.

Árið 1812, í stríðinu sem kennt er við það ártal, urðu átök milli Breta og Bandaríkjamanna. Bandaríkjamenn réðust inn í landið og náðu nokkrum svæðum á sitt vald en voru reknir til baka. Er þeir flýðu lögðu þeir eld að bænum York (sem nú er Toronto). Eftir stríðið var ákveðið að beina athyglinni frekar að innflytjendum frá Bretlandseyjum heldur en Bandaríkjunum.

Árið 1840 urðu Efra- og Neðra-Kanada að fylkinu Kanada (enska: Province of Canada). En árið 1867 var því skipt upp í Ontaríó og Quebec eftir tungumálalínum. Með tilkomu kanadísku Kyrrahafsjárnbrautarinnar (Canadian Pacific Railway, lögð 1875–1885) varð efnahagurinn blómlegur og stöðugt fleiri evrópskir innflytjendur komu á svæðið. Virkjun Níagara-fossa færði iðnaðinum aukinn kraft.

Eftir fyrri heimstyrjöld ríkti talsverð andúð á Þjóðverjum í fylkinu og ákveðið var að breyta nafni borgarinnar Berlín í einu héraði þess í Kitchener, eftir breskum flotaforingja. Mikill uppgangur var eftir seinni heimstyrjöld og Toronto varð miðstöð viðskipta í landinu en bílaiðnaður byggðist upp í suðurhluta fylkisins.

Landafræði og Náttúrúfar

Ontaríó er 1.076.000 ferkílómetrar að stærð. Fylkjamörk þess liggja að Manitóba í vestri og Quebec í austri en í suðri eru fimm bandarísk fylki (frá austri til vesturs); Minnesota, Michigan, Ohio, Pennsylvania og New York. Vötnin miklu: Ontaríó-vatn, Miklavatn, Erie-vatn og Húron-vatn mynda stóran hluta landamæranna. Saint Lawrence-fljót er skipgengt frá vötnunum miklu til Atlantshafs.

Ontaríó er stundum skipt í suður- og norðurhluta. Mikill meirihluti íbúanna býr í suðurhlutanum og ræktarland er mest þar. Norðurhlutinn er mun strjálbýlli, skógi vaxinn og þar er loftslag kaldara. Mestur hluti fylkisins er láglendi en hæðótt er á Kanada-skildinum. Hæsti punktur nær tæpum 700 metrum í norðausturhlutanum. Einnig eru hæðir syðra, í Niagara-hjallanum. Point Pelee er syðsti punktur Kanada, þar er þjóðgarður með sama nafni; Point Pelee-þjóðgarðurinn.

Í fylkinu eru sumur heit og vetur kaldir. Vötnin miklu milda loftslagið í nágrenni sínu í Suður-Ontaríó á veturna þegar þau skila frá sér hitanum sem þau taka til sín á sumrin. Úrkoma er frá 750-1000 mm og dreifist jafnt yfir allt árið. Í Norður-Ontaríó kælir Hudson-flói loftið á sumrin.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Heimild

Fyrirmynd greinarinnar var „Ontario“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. feb. 2017.