Benjamin Nnamdi Azikiwe (16. nóvember 1904 – 11. maí 1996), einnig þekktur undir gælunafninu „Zik“, var nígerískur stjórnmálamaður og fyrsti forseti Nígeríu.[1]
Æviágrip
Nnamdi Azikiwe var af þjóðerni Igbóa (fjölmennasta þjóðarbrotsins í austurhluta Nígeríu) og fæddist í Zungeru.[2] Azikiwe fór til Bandaríkjanna árið 1925 og gekk þar í Lincoln-háskóla í Pennsylvaníu. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu í mannfræði árið 1929 og sneri aftur til Afríku árið 1935.
Árið 1943 hóf Azikiwe þátttöku í sjálfstæðisbaráttu Nígeríu. Árið 1944 tók hann þátt í að stofna sjálfstæðishreyfinguna Þjóðarráð Nígeríu og Kamerún (NCNC; nafninu var síðar breytt í Þjóðarráð nígerískra borgara) og varð forseti hennar. Árið 1947 varð hann meðlimur á löggjafarþingi Nígeríu og árið 1951 gekk hann á þing Austur-Nígeríu, sem hann leiddi sem forsætisráðherra frá næsta ári.
Azikiwe lagði áherslu á menntun, iðnþróun og almenn kosningaréttindi og reyndi að feta milliveg milli Breta og stuðningsmanna sinna án þess að gleyma sér við viðskipti eins og rekstur bankans African Continental Bank, sem hann hafði stofnað.
Árið 1953 var Azikiwe óumdeildur leiðtogi austurhluta Nígeríu. Stuttu eftir að Nígería hlaut sjálfstæði árið 1960 varð hann landstjóri og síðan fyrsti forseti landsins þegar Nígería var lýst lýðveldi árið 1963. Abubakar Tafawa Balewa varð forsætisráðherra í forsetatíð Azikiwe, sem gegndi aðallega táknrænu hlutverki sem forseti.
Þann 15. janúar 1966 var Azikiwe steypt af stóli ásamt borgaralegum stjórnvöldum Nígeríu í hallarbyltingu hershöfðingjans Johnsons Aguiyi-Ironsi.
Á tíma nígerísku borgarastyrjaldarinnar (1967–1970) gerðist Nnamdi Azikiwe talsmaður lýðveldisins Bíafra, sem reyndi að kljúfa sig frá Nígeríu, og forseta þess, Odumegwu Emeka Ojukwu. Árið 1969 lagði Azikiwe fram fjórtán liða friðaráætlun en henni var hafnað.
Eftir stríðið varð Azikiwe rektor Háskólans í Lagos frá 1972 til 1976. Hann stofnaði árið 1979 Þjóðarflokk Nígeríu og bauð sig fram til forseta á ný en lét í minni pokann á móti Shehu Shagari. Azikiwe bauð sig aftur fram í forsetakosningum árið 1983 en tapaði aftur á móti Shagari og hætti síðan afskiptum af stjórnmálum árið 1986.
Azikiwe lést árið 1996. Mynd af honum er á nígerískum 500 naira seðlum.
Tilvísanir
↑Marie-Soleil Frère (25. apríl 2016). Journalismes d'Afrique (franska). Louvain-la-Neuve: De Boeck Superieur. bls. 386. ISBN978-2-8041-9176-4.