Molière

Jean-Baptiste Poquelin (15. janúar 162217. febrúar 1673) betur þekktur sem Molière, var franskt leikskáld, leikstjóri og leikari.

Hann fæddist í París, sonur bólstrara, en lærði í hinum virta menntaskóla Collège de Clermont sem rekinn var af Jesúítum. 1643 stofnaði hann leikhóp ásamt ástkonu sinni, Madeleine Béjart og fleirum og tók upp listamannsnafnið Molière til að hlífa föður sínum við þeirri skömm að eiga leikara fyrir son. Þessi leikhópur varð gjaldþrota 1645 og hann lenti í skuldafangelsi sem faðir hans leysti hann úr. Eftir það flakkaði hann um í fjórtán ár með Madeleine og skemmti í þorpum. Á þessu flakki hitti hann prinsinn af Conti sem gerðist styrktaraðili leikhópsins sem tók sér nafn hans.

1658 kom Molière aftur til Parísar og lék þar í Louvre (sem þá var leigð út fyrir leiksýningar), meðal annars í eigin farsa Le docteur amoureux. Leikhópur hans sameinaðist frægum ítölskum Commedia dell'arte leikhóp og hann tróð upp í leikhúsi þeirra, Petit-Bourbon. 18. nóvember 1659 setti hann þar upp leikritið Les Précieuses Ridicules sem aflaði honum nokkurrar athygli og mikillar gagnrýni. Á næstu árum setti hann mörg fleiri gamanleikrit á svið sem mörg gengu vel.

1662 flutti leikhópurinn yfir í Théâtre du Palais-Royal og Molière giftist Armande, sem hann áleit vera systur Madeleine, en sem var í raun laundóttir hennar sem hún átti með öðrum manni. Þetta varð vatn á myllu óvina Molières sem héldu því nú fram að hann hefði gifst dóttur sinni. Loðvík 14. hélt verndarhendi yfir honum, veitti honum fastan lífeyri og samþykkti að gerast guðfaðir fyrsta sonar hans.

1664 samdi Molière tvö verk með tónlist eftir Jean-Baptiste Lully. Sama ár var eitt frægasta verk hans, Tartuffe (Le Tartuffe, ou L'Imposteur), sett á svið og olli miklu hneyksli fyrir það hvernig hann gagnrýndi yfirstéttirnar. Konungur sjálfur mun hafa mælst til þess að verkið yrði tekið af sviði og Molière skrifaði með hraði nýtt verk, Don Juan (Dom Juan, ou le Festin de Pierre) til að setja upp í staðinn. 1666 kom síðan út Mannhatarinn (Le Misanthrope) sem er almennt talið besta verk Molières en náði ekki miklum vinsældum í fyrstu.

Áfram notaði hann tónlist Lullys í verkum eins og Le Bourgeois Gentilhomme en skrifaði minna þar sem hann var orðinn veikur. Síðasta verk hans, Ímyndunarveikin (La Malade Imaginaire) var frumsýnt 10. febrúar 1673, en Molière féll niður á sviðinu á fjórðu sýningu og lést skömmu síðar. Sagt var að hann hefði verið í gulum fötum og síðan hefur það verið talinn ólánslitur meðal leikara.

Tengt efni