Leikari eða leikkona er starfsheiti og haft um þann sem fer með hlutverk persónu á sviði, í kvikmynd eða sjónvarpi og notar til þess texta sem leikskáld (eða handritshöfundur) hefur samið.
Tegundir leikara
Til eru eftirfarandi tegundir leikara:
aðalleikari: sá sem leikur aðalhlutverkið.
aukaleikari: sá sem leikur aukapersónu, persónu sem ekki er í aðalhlutverki.
áhættuleikari: sérþjálfaður maður sem leikur í áhættuatriðum fyrir leikara.
dansleikari: ballet-dansari, oft einnig haft um þann sem aðeins dansar í söngleikjum.
eftirherma: sá sem hermir eftir.
farandleikari: leikari sem flakkar um með leikhópi.
gamanleikari: sá sem leikur í gamanleik, einnig nefndur háðleikari.
harmleikari: sá sem leikur í harmleik.
látbragðsleikari (svipbrigðaleikari): sá sem ekki notar orð, heldur líkamann til að tjá persónu eða aðstæður (mimic).
leikhússkórmey: stúlka í kór, kemur oft fyrir í söngleikjum(chorus girl).
statisti: sá sem leikur ónafngreinda persónu í hópatriðum.