Maria de'Medici

Maria de'Medici á málverki eftir Peter Paul Rubens.

Maria de'Medici (26. apríl 15753. júlí 1642) var drottning í Frakklandi þar sem hún var kölluð Marie de Médicis. Hún var önnur eiginkona Hinriks 4. Frakkakonungs og móðir Loðvíks 13.

Maria var dóttir Frans 1. stórhertoga í Toskana og Jóhönnu frá Austurríki. Hún giftist Hinriki árið 1600 eftir að hjónaband hans og Margot drottningar var ógilt. Elsti sonur hennar, Loðvík, fæddist í Fontainebleau-höll ári síðar.

Hjónabandið var ekki farsælt. Maria átti í átökum við hjákonur Hinriks, en fékk því jafnframt framgengt að Margot drottningu var hleypt aftur til Frakklands. Hún sýndi lítinn áhuga á stjórnmálum meðan Hinrik var á lífi og þegar hann var myrtur og hún varð ríkisstjóri fyrir barnungan son sinn, varð hún háð hirðmey sinni Leonoru Dori og ítölskum eigimanni hennar, Concino Concini. Í utanríkismálum hvarf hún frá hinni hefðbundnu andstöðu Frakklands við Spán enda sjálf af ætt Habsborgara og gekk frá því að börn hennar giftust meðlimum spænsku konungsfjölskyldunnar.

Stærsta verkefni hennar var bygging Lúxemborgarhallar sem hófst 1615 samkvæmt teikningum Salomons de Brosse. Peter Paul Rubens var hirðmálari hennar.

Stefna og stjórnunarhættir þeirra Concinis voru óvinsælir meðal hirðarinnar. Hún var neydd af franska háaðlinum til að kalla saman franska stéttaþingið 1614-1615 í síðasta sinn fram að frönsku byltingunni. Þar kom fram biskupinn Richelieu sem ákafur talsmaður forréttinda kirkjunnar. 1616 gerði hún hann að æðstaráði í ríkisstjórn sinni og ráðgjafa sínum við hlið Concinis.

1617 gerði Charles de Luynes hallarbyltingu og fékk hinn fimmtán ára gamla Loðvík 13. til að taka stjórnina í eigin hendur. Loðvík lét myrða Concini og setti móður sína í stofufangelsi í Blois-höll í Loire-dal. Richelieu var einnig rekinn í útlegð. Tveimur árum síðar slapp hún og tók þátt í tilraun til hallarbyltingar undir stjórn bróður Loðvíks, Gaston hertoga af Orléans. Sveitir Loðvíks brutu byltinguna auðveldlega á bak aftur, en í kjölfarið sættust þau fyrir milligöngu Richelieus sem tók sæti de Luynes við hlið konungs eftir 1621.

Maria reyndi þá að koma Richelieu frá völdum og misheppnuð tilraun hennar og annarra óvina kardinálans til að fá konung til að segja honum upp störfum árið 1630 var kölluð Dagur flónanna. Eftir það var hún aftur rekin í útlegð til Compiègne þaðan sem hún flúði til Brussel 1631 og Amsterdam 1638 þar sem henni var tekið með kostum og kynjum. Litið var á heimsókn hennar sem óopinbera viðurkenningu á sjálfstæði Hollands.

Hún lést að lokum í Köln árið 1642.