Macrinus

Macrinus
Rómverskur keisari
Valdatími 217 – 218
með Diadumenianusi (218)

Fæddur:

um 165
Fæðingarstaður Cesarea, Mauretaniu

Dáinn:

Júní 218
Dánarstaður Cappadocia
Forveri Caracalla
Eftirmaður Elagabalus
Maki/makar Nonia Celsa
Fæðingarnafn Marcus Opellius Macrinus
Keisaranafn Caesar Marcus Opellius Severus Macrinus Augustus
Tímabil Severíska ættin

Marcus Opellius Macrinus (um 165 – júní 218) var keisari Rómaveldis á árunum 217 – 218. Hann var frá Mauretaniu í Norður-Afríku og var fyrsti keisarinn sem ekki kom úr röðum aðalsmanna eða öldungaráðsmanna.

Macrinus var yfirmaður lífvarðasveitar Caracalla, þegar sá síðarnefndi var myrtur, og var því í góðri stöðu til þess að ná völdum. Caracalla var hins vegar vinsæll á meðal hermanna og Macrinus beið í þrjá daga áður en hann leitaði eftir stuðningi þeirra. Hann fékk þó nægan stuðning og var lýstur keisari af hernum og öldungaráðinu í Róm. Rómverjar voru í stríði við Parþa á þessum tíma og Macrinus þurfti fljótlega að verjast innrás þeirra. Herir ríkjanna mættust í hörðum bardaga þar sem útkoman var tvíræð en Macrinus samþykkti að borga Pörþunum háar fjárhæðir fyrir vopnahlé. Þessi niðurstaða var hermönnunum ekki að skapi og því var staða hans ótrygg.

Orðrómur fór af stað árið 218 að Elagabalus, frændi Caracalla og Geta, væri í raun sonur Caracalla og því hinn rétti erfingi keisaratitilsins. Elagabalus fékk fljótlega talsverðan stuðning á meðal hermanna og var hylltur sem keisari þann 15. maí 218, nálægt borginni Emesu í Syriu (Sýrlandi). Macrinus reyndi að styrkja stöðu sína með því að gera níu ára son sinn, Diadumenianus, að með-keisara (augustus) og lofaði af því tilefni að borga hermönnunum háar fjárhæðir. Engu að síður yfirgáfu hann sífellt fleiri hermenn og gengu til liðs við Elagabalus. Að lokum var hann sigraður í bardaga, af uppreisnarmönnum, nálægt borginni Antiokkíu. Macrinus flúði en náðist stuttu síðar og var tekinn af lífi. Diadumenianus var einnig tekinn af lífi.

Heimildir

  • Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).


Fyrirrennari:
Caracalla
Rómarkeisari
(217 – 218)
Eftirmaður:
Elagabalus