Laufás (Grýtubakkahreppi)

65°53′35″N 18°4′49″V / 65.89306°N 18.08028°V / 65.89306; -18.08028

Gamli bærinn í Laufási
Kirkjan.

Laufás í Grýtubakkahreppi er kirkjustaður og prestsetur í Þingeyjarsýslu. Prestsetur hefur verið í Laufási frá fyrstu kristni. Kirkjustaðurinn kemur lítillega við sögu í Ljósvetninga sögu. Laufáskirkja var helguð Pétri postula. Á árunum 1622-1636 bjuggu séra Magnús Ólafsson og kona hans Agnes Eiríksdóttir í Laufási. Edda Magnúsar Ólafssonar (Laufás-Edda) er kennd við Laufás en ekki samin þar. Magnús lést 22. júlí 1636 og bróðursonur Agnesar var vígður til prests í Laufási árið 1637. Sá hét Jón Magnússon og var skáld.

Kirkjan sem stendur í Laufási er byggð árið 1865 af Tryggva Gunnarssyni, trésmið og athafnamanni, og Jóhanni Bessasyni á Skarði í Dalsmynni.[1]

Í Laufási er gamall burstabær, byggður í núverandi mynd af Jóhanni Bessasyni bónda á seinni hluta 19. aldar. Laufásbærinn er nú byggðasafn og búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900. Hann var hýbýli prests þar til byggt var nýtt prestsetur árið 1936.

Frá Laufási var Þórhallur Bjarnarson biskup, sem byggði hús í Reykjavík, Laufás við Laufásveg og lét heita eftir bænum. Við það hús er svo Laufásvegur kenndur.

Sonur Péturs Þórarinssonar prests reisti íbúðarhús í Laufási en Prestsetrasjóður leigði honum jörðina án hlunninda eftir að faðir hans lést. Risu af því deilur árið 2007.

Tilvísanir

  1. Um Laufás Geymt 2 febrúar 2016 í Wayback Machine, Skoðað 17. ágúst 2015.

Heimildir