Landspróf (oft nefnt landspróf miðskóla) var samræmt próf sem veitti rétt til inngöngu í mennta- og kennaraskóla á Íslandi á árunum 1946-1976. Eftir það voru samræmdu prófin tekin upp.[1]
Landspróf hóf göngu sína árið 1946 er ný fræðslulög voru sett. Nemendur tóku prófið á 16. ári og voru landsprófsgreinarnar íslenska, danska eða annað Norðurlandamál, enska, landafræði, náttúrufræði, stærðfræði og eðlisfræði. Nemendur þurftu að fá meðaleinkunnina 6 til þess að ná landsprófi og þar með eiga möguleika á skólavist í menntaskóla.[2]
Áður en landspróf kom til sögunnar voru haldin sérstök inntökupróf í menntaskólana tvo sem þá voru starfandi, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann í Reykjavík og komust einungis 25 nemendur inn í síðarnefnda skólann[3]. Inntökuprófið þótti stembið og höfðu nánast engir möguleika á að komast að nema þau sem áttu efnaða foreldra sem gátu greitt fyrir sérstaka aukatíma. Með nýju fræðslulögunum varð sú breyting að nemendur gagnfræða- og héraðsskóla gátu tekið landspróf í sínum heimaskólum víðsvegar um land og skyldu prófin fara fram samtímis um allt land. Auk þess voru útbúin verkefni til undirbúnings fyrir landspróf í flestum námsgreinum, svo að alls staðar yrðu gerðar sömu kröfur til nemenda. Sérstök nefnd annaðist yfirferð prófanna hvarvetna að af landinu, svo að sama mat yrði lagt á úrlausnir allra nemenda.[4]
Fræðslulögin voru sett í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks undir forystu Ólafs Thors og gegndi Brynjólfur Bjarnason þingmaður Sósíalistaflokksins embætti menntamálaráðherra. Ekki voru allir sáttir við þessa nýju breytingu. Framsóknarmaðurinn Jónas frá Hriflu taldi nýju lögin vera tilraun kommúnista til að leggja sveitir landsins í eyði því fjöldi þeirra ungmenna sem myndu yfirgefa heimahagana myndi aukast gríðarlega. Bjarni Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins taldi lögin hins vegar fela í sér „góða hugsun“ og greiddi atkvæði með þeim.[3]
Reyndin varð sú að með tilkomu landsprófs áttu fleiri en áður tök á menntaskólanámi og því má segja að prófið hafi átt sinn þátt í að auka efnahagslegt jafnrétti til náms hér á landi og þau skiluðu fjölbreyttari flóru nemanda inn í skólanna, t.d. börnum efnalítilla foreldra sem síður höfðu tök á að senda börn sín til mennta í því kerfi sem fyrir var.[3]
Tilvísanir
- ↑ „Til hvers eru samræmd próf?“. www.mbl.is. Sótt 4. nóvember 2020.
- ↑ „Á fjórða hundrað nemendur munu þegar í vor þreyta „miðskólapróf“ við 16 framhaldsskóla“, Þjóðviljinn, 7. mars 1946 (skoðað 3. júlí 2019)
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Ingi F. Vilhjálmsson, „Stéttaskipting á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar“ Morgunblaðið, 7. október 2006 (skoðað 3. júlí 2019)
- ↑ Ólafur Þ. Kristjánsson, „Um landsprófið (miðskólaprófið)“, Menntamál, 19. árg, 4. tbl. 1946 (skoðað 3. júlí 2019)