Kolkuós er eyðijörð og forn verslunarstaður í Skagafjarðarsýslu á Íslandi, 15 km frá Sauðárkróki og 10 km frá Hofsósi. Þar er nú rekið gistiheimili.[1]
Hafnarstæði er gott frá náttúrunnar hendi í Kolkuósi, þar er tangi sem er eins og náttúruleg bryggja en vafasamt er að hafskip hafi getað siglt inn í sjálfan ósinn því þar er klöpp sem hindrar skipaferðir. Um 300 metra vestur frá tanganum er allhár klapparhólmi, Elínarhólmi. Líklega hefur höfnin verið enn betri áður því talið er að þá hafi Elínarhólmi verið tengdur landi með tanga sem nú er horfinn í sjó að mestu. Enn brýtur sjórinn af tanganum, þar sem fornminjar er að finna, og hefur því uppgröftur sem fram hefur farið í Kolkuósi á síðustu árum verið í kapphlaupi við tímann.
Verslun í Kolbeinsárósi
Eldra nafn Kolkuóss og hið löggilda verslunarnafn er Kolbeinsárós. Kolbeinsárós var aðalverslunarhöfn Skagfirðinga á landnámsöld og er getið um það í Landnámu að þangað hafi hin fræga hryssa Fluga, sem Flugumýri er sögð heita eftir, verið flutt. Í Kolbeinsárósi var vörum skipað á land sem fluttar voru til biskupsstólsins á Hólum og er jafnvel talið að Hólar hafi orðið fyrir valinu sem biskupsstóll vegna nálægðar við góða höfn. Talið er að á Kolkuósi hafi nokkru fyrir siðskipti verið bænhús eða bjálkakirkja sem kaupmenn hafi reist. Mun það vera eina hús þeirrar gerðar á Íslandi.
Fornleifar
Fornleifarannsóknir hafa verið stundaðar á Kolkuósi frá 2003 og er hluti af Hólarannsókn sem hófst árið 2002 undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings [2].
Ráðist var í björgunaruppgröft á Kolkuósi sökum mikils landbrots af völdum sjávar, sem hefur haft þær afleiðingar að munum hefur skolað á haf út. Uppgröftur hefur að mestu farið fram á tanganum milli ár og sjávar, en þar brýtur mest á. Rannsóknir sýna að frá 10. öld og fram til 16. aldar hafi mikil starfsemi farið fram á Kolkuósi, þar sem bæði var stunduð verslun og ýmis framleiðsla [3].
Á Kolkuósi hafa amk. 15 búðir eða önnur mannvirki verið grafin upp en ekkert bendir til stöðugrar búsetu á staðnum. Í sumum búðanna fundust eldstæði sem þykir sýna að þær hafi gegnt mismunandi hlutverkum [4]. Í frétt frá RÚV segir að búðirnar hafi verið tímabundinn viðlegustaður (svefnstaður), birgðageymslur, sölutjöld og verkstæði [5].
Á meðal þeirra muna sem hafa fundist eru „tinnur, brýni, bökunarplötur frá Noregi, 3 brot úr leirkerum, járngripir, hnífar, bátsaumur, naglar, óþekkt verkfæri úr járni, brons brot og þynnur, sveskjukjarnar, hákarlatennur, unnin hvalbein og múrbrot“ [6]. Einnig fundust þar tveir silfurpeningar; annar frá Suður-Þýskalandi frá því síðari hluta 11. aldar og hinn er frá Englandi frá síðari hluta 12. aldar [7].
Elstu minjar eru frá 10. öld en flestar minjanna eru frá 11. og 12 öld, þá eru elstu mannvistarleifar taldar vera frá landnámsöld [8].
Til aldursgreiningar var m.a. notast við gjóskulög úr Heklu frá 1104 [9]. Þá fannst heiðin gröf þar sem maður hafði verið grafinn með svíni og bendir C14 aldursgreining til þess að gröfin hafi verið tekin eftir kristnitöku árið 1000 [10].
Sumarið 2006 hófst neðansjávarrannsókn við Kolkuós, með það markmið að kanna hafnaraðstæður frá miðöldum og fljótlega eftir það fannst akkeri við Elínarhólma, sem liggur skammt undan árósnum. Er akkerið talið vera frá miðöldum eða jafnvel víkingaöld
[11].
Við Kolkuós fundust bein úr ýmsum húsdýrum, bæði nautgripum, sauðfé, hestum, svínum og hundum, svo og selum, hvölum og margskonar fuglum og fiskum, en þar hafa einnig fundist bein smáhunda, sem fyrirmenn hafa haft til að halda á sér hita og voru stöðutákn á miðöldum [12]. Þá hafa fundist ummerki um ýmis nagdýr svo sem rottur og mýs [13].
Nokkru fyrir 1600 tók Hofsós við sem aðalverslunarstaðurinn á þessum slóðum, líklega vegna þess að höfnin í Kolkuósi hefur þá verið farin að spillast, og verslun í Kolbeinsárósi lagðist af. Þó hófst þar verslun aftur árið 1881 en þá varð staðurinn löggilt verslunarhöfn. Kaupmenn á Sauðárkróki höfðu þar útibú og um áramótin 1900 voru þar fjögur verslunarhús.
Búseta
Föst búseta hófst í Kolkuósi 1891, þá settust þar að Tómas Ísleiksson og Guðrún Jóelsdóttir. Þau fluttust seinna til Vesturheims. Árið 1901 fluttust Hartmann Ásgrímsson og Kristín Símonardóttir í Kolkuós og byrjuðu þar verslun. Þau byggðu íbúðarhús á árunum 1903-4. Það hús stendur enn. Þar stendur einnig sláturhús sem byggt var árið 1913 og yfirbyggð rétt fyrir sláturfé sem byggð var 1914. Stofnað hefur verið félag sem vinnur að varðveislu Kolkuóss og enduruppbyggingu þessara bygginga.
Hartmann og Kristín bjuggu í Kolkuósi til 1942. Sigurmon sonur þeirra og Haflína Björnsdóttir tóku þá við búinu. Þau bjuggu í Kolkuósi til 1985. Sigurmon var landskunnur fyrir hrossarækt sína en hann ræktaði hesta af Svaðastaðastofni.
Kláfferja var í Kolkuósi. Árið 1941 féll hún í ána og drukknuðu þá tveir menn [14]
Tilvitnanir
- ↑ „Kolkuós Guesthouse | north iceland | Kolkuós, Iceland“. Kolkuos (enska). Sótt 15. ágúst 2024.
- ↑ Félag íslenskra fornleifafræðinga: „fyrirlestur um Kolkuós 19. Október“. http://fornleifafelag.org/?m=mxymiyohi&paged=13[óvirkur tengill]
- ↑ Hólaskóli, Háskólinn á Hólum: „Styrkur til Hólarannsóknarinnar“. http://www2.holar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=732:styrkur-til-holarannsoknarinnar&catid=130:frettir&Itemid=159[óvirkur tengill]
- ↑ Hólaskóli, Háskólinn á Hólum: „Vefur um fornleifarannsóknir við Kolkuós“. http://www2.holar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=577:vefur-um-fornleifarannsoknir-vie-kolkuos&catid=34:frettir&Itemid=160[óvirkur tengill]
- ↑ RÚV: „Sjórinn leikur Kolkuós illa“. http://www.ruv.is/frett/sjorinn-leikur-kolkuos-illa
- ↑ Ragnheiður Traustadóttir: Kolkuós, höfn biskupsstólsins á Hólum í Hjaltadal. www.holar.is/holarannsoknin.
- ↑ Byggðasafn Skagfirðinga: „Margt býr í moldinni“. http://www.skagafjordur.is/upload/files/MARGT%20BYR%20I%20MOLDINNI%20050608-%20ss%281%29.pdf[óvirkur tengill]
- ↑ Ragnheiður Traustadóttir og Douglas Bolender: „Hólarannsóknin 2002, Kolkuós í Skagafirði“. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20111126063417/www.holar.is/holarannsoknin/kolkuos/PDF/skyrsla2002_made050609.pdf
- ↑ Hólaskóli, Háskólinn á Hólum: „Vefur um fornleifarannsóknir við Kolkuós“. http://www2.holar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=577:vefur-um-fornleifarannsoknir-vie-kolkuos&catid=34:frettir&Itemid=160[óvirkur tengill]
- ↑ Byggðasafn Skagfirðinga: „Margt býr í moldinni“. http://www.skagafjordur.is/upload/files/MARGT%20BYR%20I%20MOLDINNI%20050608-%20ss%281%29.pdf[óvirkur tengill]
- ↑ Fornleifar við Kolkuós. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20101117041911/holar.is/holarannsoknin/kolkuos/akkeri.html
- ↑ Ragnheiður Traustadóttir: Kolkuós, höfn biskupsstólsins á Hólum í Hjaltadal. www.holar.is/holarannsoknin
- ↑ Fornleifar við Kolkuós: „Gripir - Rottur“. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20111125222350/www.holar.is/holarannsoknin/kolkuos/rottur.html
- ↑ Lögberg, 30. tölublað (24.07.1941), Blaðsíða 1
Tenglar