Kolbeinn Arnórsson kaldaljós (d. 1246), einnig nefndur Staðar-Kolbeinn, var einn af höfðingjum Ásbirninga á Sturlungaöld. Hann bjó á Reynistað í Skagafirði. Hann átti tvo alnafna, Kolbein Arnórsson goðorðsmann (d. 1166), sem var afi hans, og Kolbein Arnórsson unga.
Faðir Kolbeins kaldaljóss var Arnór Kolbeinsson (d. 1180) og móðir hans var Guðrún, dóttir Brands Sæmundssonar biskups. Halldóra systir hans var seinni kona Jóns Sigmundssonar, goðorðsmanns á Valþjófsstöðum, af ætt Svínfellinga, og var sonur þeirra Brandur Jónsson biskup. Föðurbróðir Kolbeins var Tumi Kolbeinsson goðorðsmaður í Ási, faðir þeirra Kolbeins og Arnórs Tumasona og Halldóru Tumadóttur, konu Sighvatar Sturlusonar. Kona Kolbeins kaldaljóss var Margrét, dóttir Sæmundar Jónssonar í Odda. Kolbeinn var því náskyldur eða tengdur mörgum helstu valdamönnum Sturlungaaldar.
Í rauninni hefði Arnór faðir Kolbeins átt að erfa Ásbirningagoðorð eftir föður sinn og svo Kolbeinn eftir hann því Arnór var skilgetinn, en Tumi bróðir hans ekki. Þó fór svo að Tumi fékk goðorðið og síðan synir hans og Kolbeinn ungi dóttursonur hans. Hafa þeir líklega þótt betur til höfðingja fallnir, enda metnaðargjarnir og valdafíknir, en Kolbeinn kaldaljós og Brandur sonur hans virðast hafa verið friðsamir og góðgjarnir og vel látnir af flestum. Kolbeinn kemur þó oft við sögu í Sturlungu.
Við lát Kolbeins unga gengu völdin þó til Brands, sonar Kolbeins kaldaljóss, en hann féll í Haugsnesbardaga ári síðar, 1245. Þá var Kolbeinn faðir hans orðinn gamall og hrumur og dó síðar sama ár.
Auk Brands áttu Kolbeinn og Margrét soninn Pál, sem bjó á Reynistað og var friðsemdarmaður eins og þeir feðgar, og Valgerði.
Heimildir