Karma

Karma (úr sanskrít: कर्म kárma, einnig á palí: कम्म kamma) er andlegt hugtak sem þýðir að allar gjörðir, líkamlegar jafnt sem huglægar, valdi afleiðingum. Þessar afleiðingar birtast í næstkomandi tilverustigum. Þetta er grundvallarkenning í öllum trúarbrögðum af indverskum uppruna, svo sem búddisma, hindúisma, jaínisma og síkisma.   Samkvæmt búddisma, hindúisma og jaínisma er karma lögmál orsaka og verkana. Allar gjörðir, allar hugsanir, öll viðbrögð orsaka verkanir. Verkanir karma fylgja lögmáli og eru á engan veginn bundnar yfirvegun alheimsdómara eða guða. Í karma finnst engin refsing eða náð og fyrirfinnst því í raun hvorki gott né slæmt karma. Allar gjörðir valda karma. Takmarkið er því ekki að ná góðu karma heldur að losna frá því að skapa karma.

Karma í hindúisma

Í hindúisma er karma séð sem óumbreytanlegt lögmál þar sem meðvitaðar jafnt sem ómeðvitaðar gjörðir eru hluti af flóknu kerfi orsaka og afleiðinga, kerfi sem er í raun óskiljanlegt fyrir þá sem eru bundnir í karma. Markmið hindúa, eins og það er sett fram í helgiritinu Bhagavad Gita, er að tileinka sér þannig lífsmáta að hann hætti að skapa karma (karma er hvorki gott né slæmt). Með því að takmarka sköpun nýs karma má nálgast jiva-atma, það er sál einstaklingsins, lokatakmarkið að ná moksha eða frelsun.

Karma í búddisma

Búddistar leggja áherslu á að karma skapist einungis af meðvituðum gjörðum. Lögmál orsaka og afleiðinga er því í höndum einstaklingsins og með réttum gjörðum og réttum hugsunum getur einstaklingurinn að lokum losnað úr hringrás samsara, endurholdgun í nýja þjáningu lífsins.

Heimildir

  • Coogan, Michael D. (ristj.). The Illustrated Guide to World Religions. Oxford University Press, 2003. ISBN 1-84483-125-6.
  • Schumann, Hans W. Handbuch Buddhismus: Die zentralen Lehren – Ursprung und Gegenwart. Diederichs: München 2000. ISBN 3-7205-2153-2.