Jón Böðvarsson (2. maí 1930 — 4. apríl 2010) var íslenskufræðingur, kennari, skólameistari og ritstjóri. Foreldrar hans voru Ragnhildur Dagbjört Jónsdóttir og Böðvar Stephensen Bjarnason. Jón var giftur Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur.
Jón stundaði kennslu við ýmsa skóla og var jafnframt virkur í stjórnmálahreyfingum. Hann var starfsmaður Æskulýðsfylkingarinnar og Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins. Hann var deildarstjóri í íslensku við Menntaskólann við Hamrahlíð frá 1966 til 1976, þegar hann varð fyrsti skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja og gegndi þeirri stöðu til 1984. Hann var heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands.
Jón var þekktur fyrir námskeið sín um fornsögurnar, aðallega Njálu, og voru þau mjög fjölsótt í áraraðir. Hann var einnig þekktur sem fararstjóri á Njáluslóðir og víða um land.