Jansenismi

Titilsíða ritsins Ágústínus eftir Cornelius Jansen í útgáfu frá 1640.

Jansenismi var kaþólsk trúarhreyfing, grein af gallikanisma í Frakklandi í anda gagnsiðbótarinnar á 17. öld. Jansenismi lagði áherslu á hugmyndina um erfðasyndina, spillingu mannsins og nauðsyn þess að öðlast guðlega náð og fyrirhugun. Jansenismi átti upptök sín í ritum hollenska guðfræðingsins Corneliusar Otto Jansen. Helsta vígi Jansenismans var í klaustrinu Port-Royal-des-Champs undir stjórn abbadísarinnar Marie Angélique Arnauld og Port-Royal í París. Þar störfuðu margir af helstu hugsuðum Frakklands á 17. öld, svo sem Antoine Arnauld (bróðir Marie), Pierre Nicole, Blaise Pascal og Jean Racine.

Hugtakið „Jansenismi“ var notað af helstu andstæðingum hreyfingarinnar, Jesúítum, sem sökuðu þá um að vera hugmyndafræðilega skyldir Kalvínistum. Jansenistar skilgreindu sig hins vegar sjálfir sem fylgjendur kenninga Ágústínusar. Innósentíus 10. páfi fordæmdi ýmsar af kenningum hreyfingarinnar (einkum þær sem vörðuðu tengslin milli frjáls vilja og ómótstæðilegrar náðar) sem villutrú með páfabullunni Cum occasione 31. maí 1653. Alexander 7. vildi síðan láta Jansenista undirrita sérstakan formála þar sem þeir samþykktu páfabulluna. Þetta leiddi til Formáladeilunnar 1664-1668 en Klemens 9. lét sér nægja undirskrift fjögurra Jansenistabiskupa og lét þar við sitja.

Endalok Jansenismans urðu svo í upphafi 18. aldar þegar fjörutíu guðfræðikennarar við Sorbonne-háskóla ákváðu að klerkur nokkur sem neitaði að viðurkenna óskeikulleika kirkjunnar skyldi engu að síður hljóta syndaaflausn. Þessi ákvörðun olli gríðarlegri hneykslun meðal andstæðinga Jansenista innan frönsku kirkjunnar. Á endanum gaf Klemens 11. út páfabulluna Vineam Domini Sabaoth að beiðni Loðvíks 14. sem lýsti hana bindandi lög í Frakklandi. 1708 var klaustrið í Port-Royal-des-Champs leyst upp með nýrri páfabullu (að undirlagi Loðvíks) og árið eftir voru nunnurnar reknar úr klaustrinu og byggingarnar rifnar til grunna. Klaustrið í París starfaði áfram til þar til því var lokað í Frönsku byltingunni.