Indie-rokk

Indie-rokk (stundum kallað sjálfstætt rokk, e. indie-rock) er tónlistarstefna sem þróaðist einna helst úr jaðarrokki (e. alternative rock) og er í dag mjög víðtækt hugtak. Orðið „indie“ er stytting á independent „sjálfstætt“ og upphaflega var það skilgreiningin á stefnunni að hljómsveitir og tónlistarmenn hennar stæðu á eigin fótum og væru ekki háð stórum útgáfufyrirtækjum og öðru slíku. Sumir vilja þó meina að hugtakið sé nú búið að missa sína upprunalegu merkingu því til eru þónokkrar indie-rokksveitir sem náð hafa miklum vinsældum með hjálp stórra útgáfufyrirtækja. Stefnan á rætur sínar að rekja til Bretlands og Bandaríkjanna á níunda áratugnum.[1]

Einkenni stefnunnar

Einkenni indie-rokksins eru ýmis og heldur óskýr. Því má segja að hugtakið spanni vítt svið tónlistar. Oftar en ekki er tónlist innan stefnunnar fremur frjálsleg því tónlistarmennirnir reyna ekkert endilega að fara eftir fyrirfram ákveðnum reglum til að þóknast sem flestum hlustendum. Frekar vilja tónlistarmennirnir skapa eitthvað nýtt og ferkst og leyfa sér að fara sínar eigin leiðir óháð skoðunum annarra.[2] Þó eru til fleiri stefnur í indie-flokknum en indie-rokkið, eins og nafnið gefur til kynna, svipar meira til rokks heldur en t.d. indie-popp, indie-þjóðlagatónlist o.s.frv. [3] [4] Þær hljómsveitir og tónlistarmenn sem iðkað hafa gerð indie-rokks hafa þurft að fara nýjar leiðir í dreifingu tónlistarinnar sinnar þar sem þær reiða sig ekki á stór útgáfufyrirtæki. Þar er tilkoma internetsins gífurlega mikilvægur þáttur en á internetinu eru ótal leiðir til að dreifa tónlist og indie-rokklistamenn hafa í gegn um tíðina nýtt sér þær óspart. Dæmi um þessar leiðir eru heimasíður, samskiptasíður og forrit á borð við Napster, Myspace, Facebook, Soundcloud, Youtube og margt fleira.

Saga

Uppruni og upphaf

Undir lok áttunda áratugarins hafði pönkið náð sínum mestu vinsældum en það kom aðallega frá Bandaríkjunum annars vegar og Bretlandi hins vegar.

The Cure á tónleikum 2004

Fljótlega eftir það fóru að koma fram á sjónarsviðið hljómsveitir á borð við Blondie og The Talking Heads sem spiluðu tónlist ekki ósvipaða pönkinu en þó með nokkrum breytingum; textarnir fóru að hafa dýpri merkingu í stað einföldu textanna í pönkinu.[5] Þessi sena hlaut nafnið Nýbylgjutónlist en seinna fór hún að vera kennd aðallega við hljómsveitir sem notuðust við svokallaða svuntuþeysara.[6] Einnig mynduðust stefnurnar Síð-pönk, sem innihélt hljómsveitir á borð við The Cure og Joy Division, og Gotneskt rokk, með hljómsveitir eins og Bauhaus og Siouxsie & the Banshees. Síðan snemma á 9. áratugnum fór að myndast fjöldinn allur af hljómsveitum þar sem meðlimir voru ekki endilega mjög flinkir á hljóðfærin sín en voru þó vissir um að geta búið til góða tónlist. Í Bretlandi fóru sumir að kalla stefnu þessarra sveita indie en í Bandaríkjunum var þetta ennþá bara kallað jaðarrokk eða háskólarokk. Upp frá því fóru einnig að spretta upp sjálfstæð útgáfufyrirtæki sem stuðluðu vissulega enn frekar að þróun stefnunnar.[7] Þetta er allt saman stór hluti af upphafi indie-rokksins.

Aðgreining frá jaðarrokki

Segja má að Indie-rokkið hafi endanlega skilið sig frá öðrum stefnum eins og jaðarrokki og gruggrokki um það leyti þegar hljómsveitin Nirvana sló í gegn. Að minnsta kosti ef um er að ræða raunverulega merkingu hugtaksins, þ.e.a.s. að hljómsveitirnar eða tónlistarfólkið sem býr til tónlistina standi á eigin fótum varðandi allt sem við kemur henni, hvort sem það er ferlið að semja tónlistina, það að auglýsa hana og dreifa henni eða að flytja hana. Í kjölfar vinsælda Nirvana og gruggrokks almennt urðu til hljómsveitir sem færðu þá stefnu meira í átt að testósterón-drifnu þungarokki og gerðu hana umfram allt enn almenningsvænni.[8] Eftir að gruggið varð svoleiðis hefur það stundum verið kallað handboltarokk í hálfkæringi.[9] Indie-rokkið var eins konar viðbrögð gegn þessu þar sem hljómsveitir eins og Sonic Youth, The Pixies og fleiri voru í broddi fylkingar.[10]

Indie-rokk um og upp úr aldamótum

Indie-rokk hefur sífellt orðið vinsælla og vinsælla og upp úr aldamótunum 2000 voru góð dæmi um það hljómsveitirnar Manic Street Preachers, The Strokes og Franz Ferdinand. Því hafa margir velt því fyrir sér hvort hugtakið sé búið að missa sína upprunalegu meiningu og standi nú bara fyrir ákveðinn hljóm í tónlistinni en um skilgreiningu þess hjóms eru einnig skiptar skoðanir. Árið 2006 gaf hinsvegar hljómsveitin Arctic Monkeys út sína fyrstu breiðskífu, Whatever You Say I Am, That’s What I’m Not, en það gerðu þeir á veraldarvefnum án hjálpar útgáfufyrirtækis. Sú plata seldist í nærri 400.000 eintökum á einni viku og þar með höfðu þeir sýnt rækilega fram á kraft og áhrif internetsins á tónlistarheiminn. Dæmi um fleiri Indie-rokk hljómsveitir sem hafa náð miklum vinsældum á síðustu árum eru The Wombats, Vampire Weekend, Bloc Party, The Horrors, Two Door Cinema Club og margir, margir fleiri.[11]

Indie-rokk á Íslandi

Jakobínarína

Ísland á aragrúa af góðum tónlistarmönnum og hljómsveitum og stór hluti þeirra gæti auðveldlega fallið undir Indie-rokk. Hljómsveitakeppnin Músíktilraunir hefur í gegn um tíðina komið á framfæri fjölmörgum hljómsveitum sem flokkast gætu sem Indie-rokk en þar ber að nefna Maus, Botnleðju, Mammút, Jakobínurínu, Agent Fresco, Of Monsters and Men, RetRoBot og svona mætti áfram telja.[12] Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur átt gífurlega stóran þátt í að koma með og kynna erlenda Indie-rokktónlist jafnt sem innlenda fyrir landsmönnum. Dæmi um vinsælar erlendar Indie-rokksveitir sem stigið hafa á stokk á Airwaves hátíðinni á Íslandi eru The Shins, Bombay Bicycle Club, Hot Chip, Florence and the Machine, Flaming Lips og Bloc Party.[13]

Undirflokkar

Eins og áður segir er Indie-rokk afskaplega vítt hugtak og erfitt er að nefna eitt gott dæmi um tónlistarmann eða hljómsveit sem lýsir stefnunni fullkomlega. Hún oft er mjög samtvinnuð mörgum öðrum stefnum og á sér einnig marga undirflokka sem allir hafa sína eigin áhrifavalda utan Indie-rokksins. Dæmi um þessa undirflokka eru Indie-popp, Drauma popp, Noise-popp, lo-fi, Math-rokk, Síðrokk, Geimrokk, Tilfinningarokk og fleira.[14]

Tenglar

Listi yfir stór nöfn innan indie-rokk stefnunnar[óvirkur tengill]

Heimildir

  1. „Indie rock“, Allmusic, sótt 6. maí, 2013
  2. „Indie rock“, Allmusic, sótt 6. maí, 2013
  3. „Indie pop“, Allmusic, sótt 8. maí, 2013
  4. „Indie folk“, Allmusic, sótt 8. maí, 2013
  5. „History Of Indie_Rock. Part 1: Origins And The 80s“ Geymt 9 maí 2012 í Wayback Machine, Ultimate-Guitar, sótt 9. maí, 2013
  6. „New Wave“, Allmusic, sótt 9. maí, 2013
  7. „History Of Indie_Rock. Part 1: Origins And The 80s“ Geymt 9 maí 2012 í Wayback Machine, Ultimate-Guitar, sótt 9. maí, 2013
  8. „Indie rock“, Allmusic, sótt 9. maí, 2013
  9. „Handboltarokk“, sótt 11. maí, 2013
  10. „Indie rock“, Allmusic, sótt 9. maí, 2013
  11. „The History of Indie Music“ Geymt 29 desember 2012 í Wayback Machine, Nothing But Hope And Passion, sótt 11. maí, 2013
  12. „Saga Músíktilrauna“ Geymt 2 febrúar 2013 í Wayback Machine, Músíktilraunir, sótt 11. maí, 2013
  13. „History“, Iceland Airwaves, sótt 11. maí, 2013
  14. „Indie rock“, Allmusic, sótt 11. maí, 2013