Hrollvekja

Dr. Jekyll og hr. Hyde úr kvikmynd frá 1920.

Hrollvekja er furðusaga sem gengur út á að hræða, vekja hrylling, ótta eða viðbjóð. Oft ganga hrollvekjur út á óvænt áföll, illvættir og yfirnáttúrulega atburði til að skapa ógnvænlegt og spennuþrungið andrúmsloft.

Draugasögur og óvættasögur af ýmsu tagi eiga sér ævafornar rætur. Hryllingssagnir af mannætum, blóðsugum og varúlfum eru þekktar frá Evrópu árnýaldar. Undanfari nútímahrollvekja var gotneska skáldsagan sem varð til á rómantíska tímabilinu undir lok 18. aldar. Meðal þekktustu hrollvekja 19. aldar má nefna Frankenstein eftir Mary Shelley, Melmoth the Wanderer eftir Charles Maturin, Hringjarinn í Notre-Dame eftir Victor Hugo, The Mummy! eftir Jane C. Loudon, flest verk Edgar Allan Poe, Hið undarlega mál Jekylls og Hydes eftir Robert Louis Stevenson, Myndin af Dorian Gray eftir Oscar Wilde, Ósýnilegi maðurinn eftir H.G. Wells, og Drakúla eftir Bram Stoker.

Hrollvekjur nutu mikilla vinsælda í tímaritum í upphafi 20. aldar og kvikmyndagerðarmenn hófu snemma að gera myndir eftir þekktum hrollvekjum. Hryllingsmyndir hafa síðan þá verið sívinsæl kvikmyndagrein. Mikill fjöldi kvikmynda hefur verið gerður eftir sögum nútímahrollvekjuhöfunda á borð við Robert Bloch, Thomas Harris, Stephen King, Ira Levin og Anne Rice.

  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.