Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir (fædd 1946) er íslenskur myndlistamaður sem fæddist að Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Mestan hluta ævinnar bjó hún í Reykjavík en býr nú bæði í Garðabæ og á Sámsstaðabakka.[1]

Myndir Hrafnhildar lýsa skýjafari, veðurfari og sjólagi. Hún notar eingöngu olíumálningu í verk sín.[2] Heimaslóðir hennar í Fljótshlíðinni veita henni mikinn innblástur en Hrafnhildur er mikið náttúrubarn eins og myndverk hennar sýna og oft málar hún verkin út frá broti minningar frá ferðum hennar um Ísland.[3] Vatn kemur fram á flestum myndum hennar, til dæmis sem foss, lækur, gjá eða kviksyndi. Oft á myndum hennar læðist lítið ljósbrot í gegnum drungalegt veðurfarið og það má túlka á ýmsa vegu.[4]

Nám

Hrafnhildur stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1978 og 1979 og Listaháskóla Íslands 1980 – 1984 og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Árin 1999 – 2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs.[5]

Ferill

í fimmtán ár rak Hrafnhildur eigin auglýsingastofu en nú starfar hún aðeins sem listamaður. Hún hefur meðal annars haldið tíu einkasýningar, þar á meðal í Hafnarborg árið 2007, Artótekinu 2012 og tekið þátt í samsýningum um nokkurra ára bil eða samtals sjö enn sem komið er, bæði á Íslandi og erlendis.[6] Meðal samsýninga sem hún hefur tekið þátt í er í Grósku þar sem þemað var bernskan. Verk Hrafnhildar þar hét Þriggja vikna og er af Fimmvörðuhálsgosinu sem náði því að verða þriggja vikna.[7] Ein af einkasýningum Hrafnhildar hét Hvar áttu heima? og var haldin í Gallerí Fold. Nafnagiftin varð til vegna ófárra ferða hennar milli Fljótshlíða og Garðabæjar en stundum vissi Hrafnhildur hreinlega ekki á hvorum staðnum hún væri. Þema þessarar sýningar var eins og undanfarin ár, íslenskt veðurfar, skýjafar, eldgos og sjólag.[8]

Árið 2007 var hún valin Listamaður mánaðarins í Gallerí Lind og sýningar á Hótel Rangá árin 2003 og 2007.[9] Árið 2011 komst Hrafnhildur í 32 manna úrslit í málverkasamkeppni Saatchonline en samkeppnin fólst í því að notendur vefjarins völdu milli tveggja listmálara sem stillt voru upp á móti hvor öðrum. Verk Hrafnhildar í keppninni kallast Skýjatjald.[10]

Hrafnhildur er meðlimur í SÍM – sambandi íslenskra myndlistarmanna, Grósku, Félagi myndlistarmanna í Garðabæ og Álftanesi, SÁM og sat í stjórn FÍT, félagi íslenskra teiknara.[11] Árið 2004 dvaldi hún í listamannaíbúð Skandinaviska Foreningen í Róm en hún hefur einnig dvalið í lista- og fræðimannsíbúðinni á Skriðuklaustri nokkrum sinnum.[12]

Einkasýningar

  • 2012 – Sjólag í Artóteki
  • 2011 – Ágjöf í Einarsstofu Vestmannaeyjum
  • 2011 – Hvarvetna í Ketilhúsinu á Akureyri
  • 2011 – Straumar í Gallerí Fold
  • 2010 – Hvar áttu heima ? – Gallerí Fold
  • 2008 – Landsmót – Gallerí Ormur
  • 2008 - Í forsal vinda – Start Art
  • 2007 – Landsýn – Skriðuklaustur
  • 2007 – Landbrot – Hafnarborg
  • 2005 – Landshorn – Ketilhúsið Akureyri
  • 2004 – Útsuður – Gallerí Ormur
  • 2004 – Utanskerja – Hús málaranna
  • 2003 – Hótel Rangá
  • 2002 – Fyrstu leitir – Gallerí Skúlagata

Tilvísanir

  1. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  2. „Hrafnhildur Inga Sigurdardottir“.
  3. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  4. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  5. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  6. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  7. „Samsýning með Grósku í Garðabæ“.
  8. „Hvar áttu heima? – Sýning í Gallerí Fold“.
  9. „Um Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttir“.
  10. „Hrafnhildur Inga keppir á Saatchi vefnum“.
  11. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.
  12. „Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir“.

Heimildir