Hrútafjörður

65°13′6.90″N 21°5′2.61″V / 65.2185833°N 21.0840583°V / 65.2185833; -21.0840583

Hrútafjörður séður frá Stað

Hrútafjörður er um 36 km langur fjörður, sem liggur suður úr Húnaflóa. Næsti fjörður fyrir norðan hann er Bitrufjörður. Byggðin á vesturströndinni, Strandamegin, kallaðist Bæjarhreppur og var syðsta sveitarfélagið á Ströndum. Skráður íbúafjöldi í hreppnum var um það bil 100 manns, sem hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og þjónustu. Dálítið þéttbýli er á Borðeyri. Eftir að sameining Húnaþings vestra og Bæjarhrepps var samþykkt þann 3. desember 2011 voru þessi tvö sveitarfélög sameinuð um áramótin 2011-2012. Sveitarfélagið Húnaþing vestra nær því upp á miðjan Stikuháls, sem aðskilur Hrútafjörð og Bitrufjörð á Ströndum.

Við austanverðan fjörðinn var áður Staðarhreppur, en er nú hluti af Húnaþingi vestra. Þar er Reykjatangi þar sem er Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og áður var rekinn Héraðsskólinn á Reykjum. Við miðjan Hrútafjörð er Hrútey sem er í eigu Melstaðarkirkju. Í eynni er gjöfult æðarvarp.

Inn Hrútaförð var siglingaleið fraktskipa fyrr á árum og sigldu þau þá inn til Borðeyrar með vistir og varning. Hrútafjörður þótti erfiður til siglinga fyrir stór skip sökum þess hve skerjóttur hann er. Nokkur hætta var því á að flutningaskip tækju niðri á einhverjum köflum í firðinum.

Mörk Stranda og Húnaþings, og þar með einnig mörk Vestfjarða og Norðurlands, liggja frá botni Hrútafjarðar með Hrútafjarðará, síðan vestur yfir miðja Holtavörðuheiði upp á Tröllakirkju. Innsti byggði bærinn var áður Grænumýrartunga en er núna Óspaksstaðir eftir að Grænumýrartunga fór í eyði árið 1967.

Í Landnámabók er sagt að Ingimundur gamli Þorsteinsson hafi gefið firðinum nafn þegar hann kom þar við í leit sinni að landi til að nema og fann tvo hrúta. Bálki Blængsson er hins vegar sagður hafa numið land í Hrútafirði og búið á Bálkastöðum og síðan í . Hann á að hafa verið son Sóta af Sótanesi og barist í Hafursfjarðarorustu gegn Haraldi konungi. Í landnámi Bálka byggðu síðan landnámsmennirnir Arndís auðga Steinólfsdóttir, Grenjuður og Þröstur Hermundarsynir, Eysteinn meinfretur Álfsson og Þóroddur.