Hinrik sæfari

Hinrik sæfari
Infante Henrique eftir Nuno Gonçalves
Skjaldarmerki Hinriks sæfara
Fæddur4. mars 1394
Dáinn13. nóvember 1460 (66 ára)
StörfAðalsmaður
TrúKaþólskur
ForeldrarJóhann 1. Portúgalskonungur og Filippa af Lancaster

Infante Dom Henrique de Avis, hertogi af Viseu (4. mars 1394 – 13. nóvember 1460), betur þekktur undir nafninu Hinrik sæfari (portúgalska: Infante Dom Henrique, o Navegador), var portúgalskur prins sem lék lykilhlutverk í landafundum Portúgala á upphafsárum landafundatímabilsins á fimmtándu öld.

Æviágrip

Hinrik fæddist árið 1394 í Porto og var sonur Jóhanns 1. Portúgalskonungs og Filippu drottningar. Hann tók ungur þátt í krossferð Portúgala gegn márum í Marokkó og var sleginn til riddara á vígvellinum eftir að hafa sannað hugrekki sitt í orrustunni um Ceuta árið 1415.[1]

Hinrik hafði mikinn áhuga á sjóferðum og á því að finna siglingaleið frá Evrópu til Indlands, sem hann taldi réttilega að væri að finna sunnan við Afríku. Sem landstjóri Algarve, syðsta héraðs Portúgals, lét Hinrik stofna siglingafræðistofnun og skóla. Skólar Hinriks voru reistir á Vincenthöfða, þar sem Íberíumenn í heiðni höfðu talið að guðirnir söfnuðust saman á kvöldin til að fylgjast með sólinni setjast.[1]

Hinrik lét jafnframt reisa skipasmíðastöð og sendi nýþjálfaða sjómenn úr skólum sínum út á Atlantshaf til að leita nýrra landa og kanna strendur Afríku. Framtak Hinriks bar árangur árið 1418 þegar menn hans fundu Madeiraeyjar og námu þar land fyrir Portúgal. Lengst af áttu leiðangrar Hinriks erfitt framdráttar vegna hjátrúar Portúgala og ótta við að leggja í langferðir suður eftir ströndum Afríku. Ferðir hans komust á nokkuð skrið eftir að hann sendi landkönnuðinn Gil Eanes árið 1433 til að sigla suður fyrir Bojadorhöfða í Marokkó.[1] Í fyrstu tilraun sinni mistókst Eanes að komast suður fyrir höfðann, en þess í stað hraktist skip hans í vesturátt, þar sem hann kom til Kanaríeyja. Í seinni tilraun sinni tókst Eanes að sigla suður fyrir Bojadorhöfða og kom með plöntur frá Afríku til Hinriks sem vitnisburð um för sína.[2] Með för Eanes þótti sannað að óhætt væri að sigla sunnar en áður hafði verið gert eftir ströndum Afríku með þeirri siglingatækni sem þá var fyrir hendi.

Á næstu árum sigldu Portúgalar lengra en áður og komu meðal annars til Senegal og Grænhöfðaeyja. Hinrik lést árið 1460, rúmum fjörutíu árum eftir fund Madeiraeyja. Störf hans höfðu þá hrundið af stað landafundatímabili Portúgala og áttu eftir að leggja grunnin að hinu mikla verslunarveldi Portúgala sem reis á 15. og 16. öld. Árið 1488 tókst landkönnuðinum Bartolomeu Dias að sigla að suðurodda Afríku og árið 1497 tókst Vasco da Gama að finna siglingaleið til Indlands suður um Afríku líkt og Hinrik hafði séð fyrir sér.

Viðurnefni Hinriks

Hinrik var ekki kallaður „sæfari“ á meðan hann lifði og þetta viðurnefni festist ekki við hann fyrr en þremur öldum eftir dauða hans. Það voru tveir þýskir sagnfræðingar sem gáfu honum þetta nafn á 19. öld: Þeir Heinrich Schaefer og Gustave de Veer. Síðar náði viðurnefnið útbreiðslu þegar tveir breskir höfundar notuðu það í titlum á ævisögum sínum um prinsinn: Henry Major árið 1868 og Raymond Beazley árið 1895.[3] Enn í dag er óalgengt að Hinrik sé kallaður „sæfari“ á portúgölsku og hann er jafnan þekktur undir nafninu „Infante D. Henrique“.

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 Þorvarður Magnússon (1. október 1971). „Hinrik prins sæfari“. Æskan. Sótt 9. júlí 2019.
  2. „Hinrik sæfari: Prinsinn sem eyddi ævi sinni í þágu siglingamála“. Sjómannablaðið Víkingur. 1. desember 1967. Sótt 9. júlí 2019.
  3. Randles, W.G.L. "The alleged nautical school founded in the fifteenth century at Sagres by Prince Henry of Portugal called the 'Navigator'". Imago Mundi, vol. 45 (1993), pp. 20–28.