Hið íslenska fornritafélag

Hið íslenska fornritafélag – eða Fornritafélagið – er félagasamtök sem var stofnað í Reykjavík árið 1928 til þess að gefa út íslensk fornrit í vönduðum útgáfum. Félagið er enn starfandi og hefur gefið út 31 bindi íslenskra fornrita, auk nokkurra smárita.

Fornritafélagið nýtur mikillar virðingar fyrir útgáfur sínar, sem eru að jafnaði lagðar til grundvallar við útgáfu á einstökum ritum, svo sem Íslendingasögum, konungasögum og biskupasögum, og þýðingu þeirra á önnur mál. Fyrir útgáfunum eru ítarlegir formálar, orða- og vísnaskýringar eru neðanmáls og aftast nafnaskrár. Bækurnar eru myndskreyttar og þeim fylgja ættaskrár, kort o.fl.

Félagið var stofnað 14. júní 1928. Jón Ásbjörnsson hæstaréttarlögmaður átti frumkvæði að stofnun þess og var forseti til dauðadags (1966). Aðrir í fyrstu stjórn voru Matthías Þórðarson þjóðminjavörður ritari, Pétur Halldórsson bóksali gjaldkeri, og Ólafur Lárusson og Tryggvi Þórhallsson meðstjórnendur. Meðal fyrirmynda að útgáfunni var þýska ritröðin Altnordische Saga-Bibliothek, sem kom út á árunum 1892–1929, en einnig var höfð hliðsjón af öðrum vönduðum útgáfum. Segja má að stofnun félagsins hafi verið yfirlýsing um að Íslendingar ætluðu sér að taka forystu í útgáfu á hinum forna menningararfi þjóðarinnar, en áður hafði miðstöð þeirrar starfsemi verið í Kaupmannahöfn. Sigurður Nordal prófessor var ráðinn útgáfustjóri, en Einar Ólafur Sveinsson var einna mikilvirkastur við útgáfustörfin fyrstu árin.

Fyrsta útgáfurit félagsins, Egils saga, kom út árið 1933 í útgáfu Sigurðar Nordal, sem 2. bindi í ritröðinni Íslenzk fornrit. Með þeirri bók var allt fyrirkomulag útgáfunnar ákveðið í megindráttum. Í seinni tíð hefur það verið aðlagað nútímakröfum, t.d. með ítarlegum ritaskrám.

Þann 27. desember 2011 var gerður samstarfssamningur milli Fornritafélagsins og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til að færa í fastara form samskipti félagsins og stofnunarinnar.

Forseti félagsins (2019) er Halldór Blöndal.

Útgáfurit félagsins

———

Nýtt safn, utan ofangreindrar ritraðar:

———

Smárit:

  • Hið íslenzka fornritafélag, 1928, Stofnun, lög, efnisskrá, Rvík 1928.
  • Hið íslenzka fornritafélag, 1929–1930, Skýrsla, reikningar, félagatal, Rvík 1931.
  • Hið íslenzka fornritafélag, 1931–1934, Skýrsla, reikningar, félagatal, efnisskrá, Rvík 1935.
  • Andrés Björnsson: Hið íslenzka fornritafélag, Afmælisrit 1928–1958, Rvík 1958.

———

Nokkur bindi eru í undirbúningi (2017), m.a.:


Hið íslenska bókmenntafélag sér um daglegen rekstur og sölu á ritum Fornritafélagsins.

Þjóðargjöf til Norðmanna

Í tilefni af því að árið 2005 voru liðin 100 ár frá því að Norðmenn hlutu sjálfstæði og konungsveldi þar var endurreist, ákvað ríkisstjórn Íslands að standa að sérstakri útgáfu fjögurra Noregskonunga sagna í 500 eintökum. Þessar sögur eru: Sverris saga, Morkinskinna, Böglunga saga og Hákonar saga Hákonarsonar. Ríkisstjórnin samdi um útgáfuna við stjórn Hins íslenska fornritafélags. Vorið 2005 afhenti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs gjafabréf frá íslensku þjóðinni, en fyrsta bókin, Sverris saga, kom út vorið 2007. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti Guttorm Vik sendiherra, fyrsta eintakið við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu 17. maí 2007, á þjóðhátíðardegi Norðmanna.

Hinn 15. september 2011 afhenti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Anniken Huitfeldt menningarmálaráðherra Noregs annan hluta gjafarinnar, fyrsta eintakið af hátíðarútgáfu Morkinskinnu I–II. Athöfnin fór fram í Osló.

Þann 28. október 2013 afhenti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs þriðja og síðasta hluta gjafarinnar, hátíðarútgáfu af Böglunga sögu, Hákonar sögu Hákonarsonar og Magnúss sögu lagabætis. Fór afhendingin fram við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í Osló. Meðal viðstaddra voru Vigdis Moen Skarsten landsbókavörður, Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar og Þórður Ingi Guðjónsson ritstjóri Íslenskra fornrita.

Hátíðarútgáfan er eins og útgáfa Fornritafélagsins af sögunum, nema einnig fylgir norsk þýðing formála og bækurnar eru bundnar í brúnt skrautband. Bókunum verður dreift til fræðimanna og bókasafna í Noregi, og þær verða einnig til sölu.

Tenglar