Edda útgáfa

Edda útgáfa er íslenskt bókaforlag sem rekur áskriftar- og bókaklúbba og gefur jafnframt út bækur fyrir almennan markað. Fyrirtækið var stofnað sem Edda - miðlun og útgáfa með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells 30. júní árið 2000. Sameiningin var tilraun til að búa til stórt og öflugt bókaforlag sem myndi ráðast í verkefni á sviði nýmiðlunar auk bókaútgáfu og reksturs bókaklúbba. Þá réð Mál og menning yfir einni stærstu bókabúð landsins við Laugaveg en Vaka-Helgafell rak öfluga bókaklúbba. Bæði félögin voru með mikla útgáfustarfsemi. Fyrirtækið keypti Iðunni árið 2003 en hélt áfram útgáfu undir nöfnum forlaganna. Vaka-Helgafell hafði áður eignast Almenna bókafélagið eftir gjaldþrot þess árið 1996.

Fljótlega komu upp miklir rekstarörðugleikar sem leiddu til þess að hópur athafnamanna með Björgólf Guðmundsson í broddi fylkingar kom með nýtt fjármagn inn í félagið og hóf endurskipulagningu þess. Nafni fyrirtækisins var breytt og bókabúðirnar seldar til Pennans-Eymundssonar. Tímaritadeild Eddu, sem fylgt hafði Vöku-Helgafelli og gaf út tímaritin Iceland Review, Ský og Atlantica, var seld til Útgáfufélagsins Heims. Nýmiðlunardeildin var lögð niður. Páll Bragi Kristjónsson varð framkvæmdastjóri.

2007 var útgáfuhluti Eddu, og þar með forlögin Vaka-Helgafell, Mál og menning og Iðunn (en ekki Almenna bókafélagið) seld til sjálfseignarstofnunarinnar Máls og menningar - Heimskringlu sem var fyrir einn eigenda Eddu. Mánuði síðar var Forlagið stofnað með sameiningu Máls og menningar og bókaforlagsins JPV. Eftir í Eddu urðu bókaklúbbarnir og Almenna bókafélagið. Edda gefur einnig út bækur fyrir almennan markað undir eigin nafni. Núverandi eigandi Eddu er Jón Axel Ólafsson.

Tenglar