Erna Solberg (fædd 24. febrúar 1961) er norskurstjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. Hún gegndi embætti forsætisráðherra frá 2013 til 2021 og hefur verið formaður norska Hægriflokksins síðan 2004. Solberg var endurkjörin árið 2017. Hún hefur setið á norska stórþinginu fyrir Hörðaland frá árinu 1989.
Solberg var héraðs- og sveitastjórnarráðherra Noregs frá 2001 til 2005 í stjórn Kjells Magne Bondevik. Í því embætti beitti hún sér sérstaklega fyrir styrkingu á velferðarkerfum norsku fylkjanna, fyrir sameiningu og fækkun sumra sveitarfélaganna, og fyrir samvinnu milli fylkisstjórnanna.[1] Solberg gerði einnig breytingar á stefnu Noregs í málum hælisleitenda og innflytjenda og lagði grunninn að flýtimeðferðum á hælisumsóknum.[1] Solberg fékk það orð á sig að vera mjög ströng í garð hælisleitenda og hlaut því viðurnefnið „Járn-Erna“.[2] Þó sýna talningar að ríkisstjórn Bondeviks veitti fleiri hæliseitendum dvalarleyfi í Noregi en miðvinstristjórnin sem tók við völdum árið 2005.[3]
Solberg var kjörin formaður Hægriflokksins árið 2004 og varð þingflokksformaður flokksins árið 2005. Síðan hún tók við formennsku hefur hún lagt áherslu á samfélagslega þætti í stjórnmálastefnu Hægriflokksins. Hún þykir einnig hafa lagt áherslu á meira raunsæi í stefnumótun flokksins.[4]
Eftir þingkosningar Noregs árið 2009 jókst stuðningur við Hægriflokkinn og við Solberg sem forsætisráðherraefni verulega í skoðanakönnunum.[4] Í sveitastjórnarkosningum árið 2011 hlaut Hægriflokkurinn sína bestu kosningu frá árinu 1979. Í aðdraganda þingkosninga ársins 2013 var það yfirlýst markmið Hægriflokksins að stofna til stjórnarsamstarfs Hægriflokksins og annarra hægrihreyfinga með Solberg sem forsætisráðherra.[5] Eftir kosningarnar stofnaði Solberg samsteypustjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins með þingstuðningi Venstre og Kristilega þjóðarflokksins.
Stjórn Solberg hélt ekki velli í þingkosningum í september 2021.[6] Solberg viðurkenndi ósigur eftir kosningarnar og veik úr embætti fyrir Jonas Gahr Støre í október sama ár.[7]