|
Hamburger Sport-Verein e.V.
|
|
Fullt nafn |
Hamburger Sport-Verein e.V.
|
Gælunafn/nöfn
|
Die Rothosen (Rauðu stuttbuxurnar) Der Dino (Risaeðlurnar)
|
Stytt nafn
|
HSV
|
Stofnað
|
29. september 1887
|
Leikvöllur
|
Volksparkstadion, Hamborg
|
Stærð
|
57.000
|
Stjórnarformaður
|
Marcell Jansen
|
Knattspyrnustjóri
|
Daniel Thioune
|
Deild
|
2. Bundesliga
|
2023/24
|
4. sæti
|
|
Hamburger Sport-Verein e.V. , oftast þekkt sem Hamburger SV, Hamburg eða HSV er þýskt knattspyrnufélag stofnað í Hamborg. Þrátt fyrir að síðustu ár hafi verið félaginu erfið er það engu að síður stórt félag í evrópskum fótbolta. Það hefur sex sinnum orðið þýskalandsmeistari, síðast árið 1983, og einu sinni sigrað Meistaradeild Evrópu .
Saga
Hamburger Sport-Verein e.V. eða HSV varð til árið 1919 við samruna þriggja félaga. Elst þeirra var SC Germania, sem stofnað var árið 1887 og rekur félagið því upphaf sitt til þess árs. SC Germania var eitt öflugasta félagið í Hamborg um aldamótin 1900 og meðal stofnfélaga Þýska knattspyrnusambandsins á aldamótaárinu. Hin tvö félögin í samrunanum voru Hamburger FC frá árinu 1888 og FC Falke Eppendorf sem stofnað var árið 1906. Ástæður sameiningarinnar má rekja til fyrri heimsstyrjaldarinnar sem kostaði fjölda ungra manna lífið og olli djúpstæðri kreppu í Þýskalandi.
Hið nýstofnaða félag komst þegar í fremstu röð og árið 1922 lék það til úrslita um þýska meistaratitilinn í einum sögulegasta úrslitaleik allra tíma. Fyrir daga Bundesligu var þýska meistaramótið útsláttarkeppni þar sem sigurvegarar héraðsmóta mættust. Mótherjar HSV í úrslitunum vour 1. FC Nürnberg, eitt allra öflugasta lið Þýskalands á þessum árum. Viðureignin var flautuð af eftir meira en þriggja klukkustunda leik, þegar orðið var of dimmt til að spila. Aftur þurfti að framlengja hinn endurtekna úrslitaleik, sem þótti óprúðmannlega leikinn. Þar sem skiptingar varamanna höfðu enn ekki verið heimilaðar neyddist dómarinn til að flauta leikinn af þegar Nürnberg hafði einungis sjö leikfæra menn inná. Hart var lagt að HSV að afsala sér meistaratitlinum vegna þess og fór svo að lokum eftir mikið þref og málarekstur að engir meistarar voru krýndir þetta árið.
Fyrsta óumdeilda titilinn vann HSV árið eftir sigur á Union Oberschöneweide (síðar Union Berlin) í úrslitum. Árið 1928 bætti félagið öðrum titli í safnið, þá eftir úrslitaleik gegn Hertha BSC.
Á árum Þriðja ríkisins var HSV áfram sigursælt í héraðskeppnum en náði ekki að marka djúp spor á landsvísu.
Eftir seinni heimsstyrjöldina var þýsk knattspyrna skipt upp í landshlutadeildir, uns Bundesligan var stofnuð árið 1963. HSV lék í Norðurdeildinni (þýska: Oberliga Nord) og hafði þar fáheyra yfirburði, vann 15 af þeim 16 skiptum sem keppnin fór fram 1948-1963. Á þessum árum kom markahrókurinn Uwe Seeler fram og sló fjölmörg félagsmet. Sigurmark frá Seeler tryggði félaginu sinn fyrsta þýska meistaratitil í meira en þrjá áratugi árið 1960 með sigri á 1. FC Köln. Í Evrópukeppni meistaraliða árið eftir tapaði HSV í undanúrslitum fyrir FC Barcelona og stendur áhorfendametið á heimaleiknum enn í dag.
HSV var stofnfélagi í Bundesligunni og hafði eitt liða keppt þar óslitið frá upphafi til ársins 2018 þegar liðið féll niður um deild. Fyrst um sinn var félagið þó yfirleitt um miðja deild.
Áttundi áratugurinn markaði upphafið að gullöld HSV. Liðið náði góðum árangri í bikarkeppnum og árið 1977 varð það Evrópumeistari eftir 2:0 sigur á RSC Anderlecht í Evrópukeppni bikarhafa. Sama ár gekk enska stórstjarnan Kevin Keegan til liðs við HSV frá Liverpool og vöktu þau félagaskipti mikla athygli. Keegan byrjaði með látum og þótt HSV ylli vonbrigðum og hafnaði aðeins í tíunda sæti deildarinnar var hann sjálfur valinn knattspyrnumaður Evrópu. Árið eftir varði Keegan þann titil og HSV varð Þýskalandsmeistari í fjórða sinn í sögunni.
Leiktíðina 1979-80 hafnaði HSV í öðru sæti á eftir Bayern München og mátti einnig sætta sig við silfurverðlaunin í Evrópukeppni meistaraliða eftir tap fyrir Nottingham Forest í úrslitum, í undanúrslitum hafði liðið hins vegar unnið eftirminnilegan 5:1 sigur á Real Madrid.
Austurríkismaðurinn Ernst Happel tók við félaginu fyrir leiktíðina 1981-82 og gerði HSV að Þýskalandsmeisturum á ný, auk þess að komast í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða. Félagið varði titilinn árið 1982-83 á betri markatölu en erkifjendurnir í Werder Bremen. Sama ár náði HSV sínum besta árangri þegar félagið varð Evrópumeistari eftir sigur á Juventus FC í úrslitaleik í Aþenu.
Evrópumeistaratitillinn varð þó ekki boðberi fleiri afreka. Vegur HSV fór hnignandi á næstu árum og hefur liðið ekki gert neina alvöru atlögu að þýska meistaratitlinum.
Nágrannarígur
HSV er stærsta félagið í Hamborg enn FC St. Pauli er einnig vinsælt félag í borginni. FC St. Pauli hefur einstaka sinnum tekist að komast upp í Bundesligun, meðan HSV hafa oftast spilað í Bundesligunni. Annar rígur, er nágrannaslagur borganna í norðri, Hamburg og Brimaborgar; HSV gegn Werder Bremen sem kallað er Nord Derby.
Árangur Hamburger SV
Sigrar
Þekktir leikmenn
Tengill
54°20′55″N 10°07′27″A / 54.34861°N 10.12417°A / 54.34861; 10.12417