Guðrún Helga Finnsdóttir (6. febrúar 1884 – 25. mars 1946) var vesturíslenskur rithöfundur. Hún fæddist á Geirólfsstöðum í Skriðdal á Fljótsdalshéraði. Hún fór sextán ára í Kvennaskólann á Laugalandi. Hún giftist Gísla Jónssyni prentara árið 1902 og flutti á eftir honum til Winnipeg í Kanada tveimur árum síðar. Þar bjó hún til æviloka. Guðrún hóf að birta smásögur í Tímariti Þjóðræknisfélagsins og Heimskringlu frá 1920. Smásagnasafnið Hillingalönd kom út í Reykjavík árið 1938 og annað safn, Dagshríðar spor, á Akureyri 1946 eftir lát hennar.