Stábile fæddist í Buenos Aires og gekk á táningsaldri til liðs við Huracán. Nítján ára gamall komst hann í aðallið félagsins þar sem hann lék á árunum 1924-30 og varð argentínskur meistari árin 1925 og 1928. Hann skoraði alls 102 mörk í 119 leikjum fyrir félagið.
Árið 1930 var Stábile valinn í landsliðshóp Argentínu sem keppti í fyrstu heimsmeistarakeppninni í Úrúgvæ. Frumraun hans með landsliðinu var í öðrum leik keppninnar, þar sem hann skoraði þrennu í 6:3 sigri á Mexíkó. Hann bætti tveimur mörkum við á móti bæði Síle og Júgóslavíu og skoraði loks sitt áttunda mark í keppninni þegar hann kom Argentínu í 2:1 forystu á móti heimamönnum í úrslitaleiknum. Úrúgvæska liðið hafði þó að lokum betur, 4:2.
Þessir fjórir leikir urðu einu landsleikir Stábile sem flutti sig um set til Evrópu þar sem hann lék með Genúa, Napólí og Red Star París sem spilandi þjálfari þar til síðari heimsstyrjöldin braust út. Þá flutti hann sig til heimalandsins og stýrði bæði félagsliðum og argentínska landsliðinu næstu tvo áratugina. Hann gerði Racing Club að meisturum þrjú ár í röð: 1949, 1950 og 1951. Samhliða félagsliðaþjálfun var hann aðalþjálfari landsliðsins frá 1941-58 og aftur 1960. Á þeim tíma fór Argentína sex sinnum með sigur af hólmi á Copa America.