Guðmundur Jónsson (knattspyrnuþjálfari)

Guðmundur Jónsson (20. júní 193023. júní 2017) var íslenskur knattspyrnumaður og þjálfari. Hann lék með Knattspyrnufélaginu Fram og þjálfaði fjölda kappliða félagsins um langt árabil.

Ævi og störf

Guðmundur fæddist í Reykjavík, sonur Jóns Guðjónssonar sem var liðsmaður Fram og síðar heiðursfélagi. Hann hóf ungur að iðka knattspyrnu og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 1949, átján ára að aldri. Hann varð annar tveggja markahæstu manna á Íslandsmótinu það ár, með fjögur mörk. Hann neyddist til að leggja skóna á hilluna árið 1954 vegna bakmeiðsla og sneri sér þá að þjálfun.

Um langt árabil var Guðmundur yfirþjálfari allra yngri flokka Fram í knattspyrnu, sem voru afar sigursælir enda félagssvæðið fjölmennt. Hann var jafnframt húsvörður og umsjónarmaður félagsheimilis Fram ásamt eiginkonu sinni.

Árið 1962 tók Guðmundur við þjálfun meistaraflokks Fram og leiddi liðið til sigurs í fyrstu tilraun. Hann þjálfaði Framliðið næstu tvö árin en tók sér þá hlé frá þjálfun meistaraflokks. Hann sneri aftur árið 1970 og gerði Fram að bikarmeisturum og Íslandsmeisturum tveimur árum síðar. Guðmundur þjálfaði meistaraflokkinn sumarið 1973 og árin 1975 og 1976 í samstarfi við Jóhannes Atlason. Hann þjálfaði meistaraflokk Fram í síðasta sinn sumarið 1978. Afskiptum hans af yngriflokkaþjálfun lauk árið 1985 þegar hann gerði 2. flokk Fram að tvöföldum meisturum.

Guðmundur var um skeið þjálfari unglingalandsliðs Íslands og var sæmdur heiðurskrossi KSÍ árið 2007. Árið eftir var hann gerður heiðursfélagi í Fram.