Friðrik Ólafsson

Friðrik Ólafsson
Friðrik Ólafsson, Reykjavík 2008
Upplýsingar
Fullt nafn Friðrik Ólafsson
Fæðingardagur 26. janúar, 1935
Fæðingarstaður    Reykjavík, Ísland
Titill Stórmeistari

Friðrik Ólafsson (f. 26. janúar 1935) er íslenskur lögfræðingur, fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák. Hann er sá íslenskur skákmanna sem mestum frama hefur náð í skákinni og er t.d. eini íslenski skákmaðurinn sem lagt hefur að velli Bobby Fischer (tvisvar sinnum). Hann var um tíma forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE).

Nám og störf

Friðrik lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1968. Hann var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1968-1974, forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) frá 1978-1982, ritstjóri Lagasafns Íslands frá 1982-1983 og skrifstofustjóri Alþingis frá 1984-2005.

Skákferill

Friðrik varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952 og Norðurlandameistari í skák 1953 og 1971. Alþjóðlegur skákmeistari 1956 og árið 1958 varð hann fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák. Hann sigraði á skákmótinu í Hastings 1955-1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu árið 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975. Hann veitti forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar frá 1982-1984.[1]

Ólafssonar afbrigðið

Í nimzóindverskri vörn er lína sem nefnd er Ólafssonar afbrigðið eftir Friðriki. Um er að ræða línu í Rubenstein afbrigði og kemur hún upp eftir leikina: 1.d4 Rf6 2.c4 e6 3.Rc3 Bb4 4.e3 O-O 5.Bd3 d5 6.Rf3 c5 7.O-O dxc4 8.Bxc4 b6 9.De2 Bb7 10.Hd1 Dc8.[2]

Viðurkenningar

  • 1958 - Alþjóðlegur stórmeistari í skák, fyrstur Íslendinga.
  • 1972 - Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
  • 1980 - Stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
  • 2015 - Heiðursborgari Reykjavíkur
  • 2015 - Aðalheiðursfélagi FIDE[1]

Heimildir

  1. 1,0 1,1 Skaksogufelagid.is, „Æviágrip - Samtímamenn“ Geymt 27 júní 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. júní 2019)
  2. http://www.geocities.com/siliconvalley/lab/7378/eco.htm
  Þetta æviágrip sem tengist skák er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.