Elísabet Petrovna (Елизаве́та (Елисаве́та) Петро́вна á kyrillísku letri) (29. desember 1709 – 5. janúar 1762), einnig kölluð Elísaveta eða Jelísaveta var keisaraynja Rússlands frá 1741 til dauðadags. Hún var leiðtogi Rússa í tveimur stærstu styrjöldum þessa tíma: austurríska erfðastríðinu (1740–48) og sjö ára stríðinu (1756–63). Þegar Elísabet lést spannaði Rússland tæpa 6.250.000 ferkílómetra.
Innanríkisstefna Elísabetar leyfði rússneska aðlinum að ná miklum völdum í héraðsstjórnum Rússlands en stytti hins vegar embættistíðir aðalsmanna í þjónustu ríkisins. Hún hvatti Míkhaíl Lomonosov til þess að stofna háskólann í Moskvu og Ívan Shúvalov til að stofna keisaralega listaháskólann í Sankti Pétursborg. Hún eyddi einnig miklu fé í að reisa byggingar í barrokkstíl eftir uppáhaldsarkitektinn hennar, Bartolomeo Rastrelli, þar á meðal Peterhof-höllina og Tsarskoje Selo. Elísabet er einn vinsælasti einvaldur Rússlands vegna andstöðu sinnar við Prússland og viðleitni hennar til að taka engan af lífi á allri valdatíð sinni.[1]
Æviágrip
Elísabet var dóttir Péturs mikla og Katrínar 1. keisaraynju. Auk rússnesku talaði hún frönsku reiprennandi og kunni einnig nokkur orð í þýsku. Faðir hennar vildi gifta hana Loðvík af Orléans (1703-1752), syni franska ríkisstjórans Filippusar af Orléans en samningaviðræður til að koma í kring þeim ráðahag heppnuðust ekki.[2] Móðir hennar hóf þá viðræður við frönsku hirðina í Versölum um að gifta Elísabetu Loðvík 15. Frakkakonungi en kardínálinn de Fleury hafnaði ráðahagnum þar sem hann var á móti bandalagi við Rússland. Elísabet var loks trúlofuð furstanum af Lübeck en hann lést stuttu áður en þau áttu að giftast.
Elísabet settist á valdastól sem keisaraynja þann 6. desember árið 1741 og naut góðs af því að keppinautar hennar um völdin börðust innbyrðis. Hinn eiginlegi ríkisarfi og keisari, Ívan 6., var ólögráða og móðir hans, Anna Leopoldovna, fór fyrir nefnd ríkisstjóra í hans umboði. Þetta gerði Prússum kleift að ná miklum áhrifum í rússnesku hirðinni, sem fór mjög fyrir brjóstið á rússnesku keisaravörðunum. Elísabet framdi því valdarán gegn Ívani með hjálp franska læknisins Jean Armand de Lestocq og franska sendiherrans Jacques-Joachim Trotti de La Chétardie.
Elísabet fór ásamt Preobrazhenskij-herdeildinni til Vetrarhallarinnar, lét handtaka meðlimi Brunswick-, Münnich- og Ostermann-fölskyldanna og lýsti sjálfa sig keisaraynju Rússlands.
Utanríkismál
Valdatíð Elísabetar einkenndist af þremur styrjöldum:
- Stríði Rússlands og Svíþjóðar (1741–43), sem lauk með Åbo-friðarsáttmálanum þar sem Svíar létu af hendi hluta Finnlands sunnan við fljótið Kymmene.
- Austurríska erfðastríðinu sem heldur mátti líkja við nokkurs konar „heilsugöngu“ rússneska hersins þar sem Rússar börðust aðeins í fáeinum bardögum í stríðinu árið 1746.
- Sjö ára stríðinu gegn Prússlandi. Rússar tóku mun virkari þátt í þessu stríði og komust nærri því að gersigra Prússaher Friðriks mikla. Hermenn Elísabetar unnu sigra gegn Prússum í orrustunum við Zullichau og Kunersdorf (1759) og hertóku meira að segja Berlín í stuttan tíma. Það sem bjargaði Friðrik Prússakonungi var dauði Elísabetar árið 1762 og valdataka hins þýskættaða frænda hennar, Péturs 3., sem dró rússneska herinn fljótt til baka, skrifaði síðan undir friðarsáttmála og gekk í bandalag við Prússa þann 16. júní 1762.
Innanríkismál
Elísabet átti hlut að máli í stofnun ríkisháskólans í Moskvu árið 1755 og listaháskólans í Sankti Pétursborg árið 1758. Á valdatíð Elísabetar fór frændi hennar, Ívan Shúvalov, fyrir innanríkismálum.
Fyrstu mikilvægu umbæturnar sem urðu á ríkisárum Elísabetar voru á rússneska þinginu sem varð á þessum tíma formlega æðsta ríkisstofnunin sem fór með löggjafar- og framkvæmdavaldið. Þar með varð þingið mun voldugra en það hafði verið á ríkisárum Péturs mikla.
Shúvalov hækkaði verð á salti og áfengi til þess að bæta efnahagsstöðu keisaradæmisins en hætti að setja skatt á hið síðarnefnda. Hann leigði útflutningshafnir Rússa við Hvítahaf og námur þeirra í Úralfjöllum. Hann lagði niður innanríkistolla en hækkaði innflutningstolla á snæri. Um 984 verksmiðjur voru byggðar í Rússlandi á þessum tíma.[3]
Rússneska aðlinum var á þessum tíma veittur einkaréttur á landeignum þar sem ánauðugir bændur bjuggu. Elísabet forðaðist að staðfesta dauðarefsingar og því var enginn tekinn af lífi með hennar samþykki á ríkisárum hennar.[4] Stefna hennar miðaði við að gefa aðalsmönnum aukið vægi í héraðsstjórn ríkisins en færri skyldur í þjónustu alls ríksins.
Elísabet flutti frænda sinn, Pétur af Holstein, til Rússlands til að gerast erfingi hennar og kom í kring hjónabandi hans við Soffíu af Anhalt-Zerbst, sem varð síðar Katrín mikla.
Tilvísanir
- ↑ Russian Tsars by Boris Antonov, bls. 105.
- ↑ Pierre Kovalevsky, Histoire de Russie, Éditions cinq continents, Paris, 1970, bls. 234.
- ↑ Pierre Kovalevsky, Histoire de Russie, Éditions cinq continents, Paris, 1970, bls. 237.
- ↑ Jean des Cars, La saga des Romanov, Paris, Plon, 2008, bls. 102.
|
---|
Keisarar (1547–1721) | | |
---|
Keisarar og keisaraynjur (1721–1917) | |
---|