Dagur Kári Pétursson (f. 12. desember 1973) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður. Hann er sonur rithöfundarins Péturs Gunnarssonar.[1] Hann fæddist í París í Frakklandi, en fjölskyldan fluttist til Íslands þegar hann var þriggja ára gamall. Dagur Kári útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 1999.[2] Stuttmynd hans Lost Weekend vann 11 verðlaun á erlendum kvikmyndahátíðum.[3]
Dagur Kári skipar ásamt Orra Jónssyni tvímenningshljómsveitina Slowblow. Hljómsveitin hefur gefið út þrjár breiðskífur og samið tónlist fyrir tvær af myndum Dags Kára, Nóa albínóa og Fullorðið fólk.[4]