Faðir hans var Gottskálk Þorvaldsson, tréskurðarmaður, fæddur að Reynistað í Skagafirði árið 1741. Síðar fluttist hann að Miklabæ í Blönduhlíð. Árið 1757 reið Gottskálk ásamt systkinum sínum til Hofsóss til þess að taka skip til Kaupmannahafnar. Eftir það átti Gottskálk heima í Kaupmannahöfn, og þar tók hann sér ættarnafnið Thorvaldsen að þeirrar tíðar hætti. Í heimahúsum hafði hann lært nokkuð til tréskurðar og í Kaupmannahöfn lærði hann myndskurð hjá formanni myndhöggvaragildisins í Kaupmannahöfn. Móðir Bertels hét Karen Dagnes og var fædd í Nørre Nissum á Jótlandi. Faðir Karenar var organisti og djákni í Lemvig á Jótlandi. Gottskálk og Karen gengu í hjónaband árið 1770. Þau voru ekki auðugt fólk og gekk Gottskálki erfiðlega að sjá fjölskyldu sinni farborða með tréskurði.
Skólaár
Á tólfta ári fékk Bertel fyrst að hjálpa föður sínum við tréskurð. Vinur föður hans benti á hæfileika Bertels og sannfærði föður hans um að senda Bertel í listaskóla. Bertel byrjaði ungur í fríhendisteikningu í undirbúningsdeild Fagurlistaskólans í Kaupmannahöfn árið 1781. Fljótlega vann hann til verðlauna skólans, minni silvurverðlaun fyrir mótaða mynd árið 1787. Í skólanum hlaut hann öll þau verðlaun sem í boði voru og þau æðstu, stóru gullverðlaunin, árið 1793 fyrir lágmynd sem tók fyrir efni úr Biblíunni. Þessum verðlaunum fylgdi utanfararstyrkur sem hann fékk þó ekki í hendur fyrr en nokkrum árum seinna. Í ágúst 1796 heldur hann til Rómar, ásamt hundi sínum, Hektori, kveður foreldra sína og sá þá aldrei aftur.
Stytta af Bertel stóð á Austurvelli frá 1875 til 1931 en hún vék fyrir styttunni af Jóni Sigurðssyni. Styttan af Bertel er nú í Hljómskálagarðinum.