Arnór Jónsson, f. 27. desember 1772, d. 5. nóvember 1853 var prestur og prófastur í Hestþingum í Borgarfirði og síðar í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru séra Jón Hannesson á Mosfelli í Mosfellssveit og kona hans, Sigríður Arnórsdóttir, en hún var dóttir Arnórs Jónssonar, sýslumanns í Belgsholti.
Menntun og störf
Arnór lauk stúdentsprófi frá Reykjavíkurskóla eldra (Hólavallaskóla) árið 1794 með miklu lofi. Það ár varð hann skrifari hjá Skúla Magnússyni, landfógeta, og í framhaldi af því var hann skrifari Ólafs stiftamtmanns Stefánssonar. Hann var kennari í Reykjavíkurskóla veturinn 1797 - 8 og var vígður til Hestþinga það vor. Hann bjó víða í Borgarfirði, meðal annars á Neðrahreppi, Hesti og Hvítárvöllum. Hann var prófastur í Borgarfirði frá 1807 til 1811, en það vor fékk hann Vatnsfjörð við Ísafjarðardjúp og hélt staðinn til dauðadags. Hann var prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu frá 1817 til dauðadags.
Arnór þótti vel gefinn maður og kenndi mörgum undir skóla. Hann var lágvaxinn og þrekinn og mikill glímumaður talinn, en búmaður slakur og bjó löngum við lítil efni. Skáldmæltur var hann og átti allnokkra sálma í sálmabókum, þar á meðal sálminn Til hafs sól hraðar sér, sem var alþekktur útfararsálmur.
Fjölskylda
Arnór var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður (um 1771 - 1837), Sveinsdóttir næturvarðar í Reykjavík. Sonur þeirra var séra Hannes Arnórsson, prestur í Grunnavík. Seinni kona Arnórs var Guðrún (1818 - 1869), Magnúsdóttir eymdarskrokks Jónssonar, frá Tröð í Álftafirði. Hún var tvítug en hann 66 ára er þau giftust árið 1838 og mun faðir hennar hafa ráðið meiru um það hjónaband en hún sjálf. Börn þeirra voru Magnús (bjó á Ísafirði) og Sigríður (húsmóðir á Neðri-Bakka í Langadal og Tungu í Dalamynni). Sigríður var amma Hannibals Valdimarssonar skólastjóra, alþingismanns og ráðherra og Finnboga Rúts Valdimarssonar alþingismanns, bæjarstjóra og bankastjóra.