Orðið þjór merkir naut og er Þjórsá því Nautsá. Orðið þjór kemur nokkrum sinnum fyrir í fornritum, en lifir nú einungis í örnefnum. Í nágrannamálunum eru til samsvarandi orð: danska - tyr, sænska - tjur, latína - taurus, írska - tarbh. Íslendingar tóku upp úr írsku orðið „tarfur“, og hefur það ef til vill rutt orðinu „þjór“ úr málinu.
Árnes og Hagaey eru meðal stærstu eyja í ánni. Eyjan Viðey (gengur einnig undir heitinu Minnanúpshólmi) hefur nýlega verið friðuð og er sérstök vegna gróskumikils birkiskógar.[1]Traustholtshólmi er skammt upp frá ósum árinnar þar var samnefndur bær sem nú er kominn í eyði.
Fiskigengd
Miklar nytjar eru af veiði í Þjórsá en þar er einkum stunduð netaveiði. Í ánni lifa þær fisktegundir sem algengar eru í ám og vötnum landsins, lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Flundra hefur einnig veiðst í Þjórsárósi. Í Þjórsá og þverám hennar er að finna einn af stærri laxastofnum landsins og góður stofn sjóbirtings gengur á vatnasvæðið. Þar eru einnig staðbundin bleikja og urriði. Mestur hluti villtra laxa sem ganga á vatnasvæðið er alinn upp í Þjórsá sjálfri. Selir ganga upp í Þjórsá, allt upp að Urriðafossi, til lax- og silungsveiða.