Árni Gíslason (um 1520 – 4. júní 1587) var íslenskur sýslumaður á 16. öld og einn helsti valda- og auðmaður landsins á sinni tíð. Hann bjó lengi á Hlíðarenda í Fljótshlíð.
Árni var sonur Gísla Hákonarsonar lögréttumanns á Hafgrímsstöðum í Tungusveit í Skagafirði og konu hans Ingibjargar Grímsdóttur. Hann var sagður mikill fjáraflamaður, ágjarn, harðlyndur og óbilgjarn. Hann varð klausturhaldari Þingeyraklausturs 1559 og síðan sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og lenti þá í hörðum deilum við Eggert Hannesson út af Vatnsfjarðarmálum. Árni studdi þar erfðarétt Björns Þorleifssonar en Eggert hélt því fram að eignir Þorleifs Björnssonar hirðstjóra og konu hans hefðu átt að falla í hlut Björns Guðnasonar í Ögri, en Eggert var dóttursonur hans. Um þetta var þó gerð sætt á Alþingi 1560 eftir nokkurra ára deilur.
Magnús Jónsson prúði fluttist úr Þingeyjarsýslu í Ögur 1564 og varð tengdasonur Eggerts. Var þess ekki langt að bíða að þessum tveimur ráðríku höfðingjum, Magnúsi og Árna, lenti saman. Árið 1567 segir Magnús að Árni hafi „með ofsvæsi riðið að sér um nótt“ þar sem hann var sofandi í tjaldi á Skutulsfjarðareyri og tveimur árum síðar lenti þeim og mönnum þeirra aftur saman í kaupstaðnum á Skutulsfjarðareyri og voru þeir þá drukknir og hnífar á lofti. Magnús stefndi Árna fyrir Alþingi 1570 með ítarlegri stefnu í þrettán liðum þar sem taldar eru upp ýmsar ávirðingar Árna, misalvarlegar. Ekki er þó að sjá að deilur þeirra hafi komið til dóms á Alþingi og er líklegt að einhverjir hafi gengist í að koma á sættum milli þeirra áður en til þess kom.
Árni varð sýslumaður Rangæinga og fluttist að Hlíðarenda í Fljótshlíð eftir lát Páls Vigfússonar lögmanns 1669. Hann var giftur Guðrúnu Sæmundsdóttur, sem var einkadóttir Sæmundar ríka Eiríkssonar í Ási í Holtum og Guðríðar Vigfúsdóttur konu hans, systur Páls. Páll var barnlaus og erfðu börn systra hans, Guðríðar og Önnu á Stóru-Borg, eignir hans. Árni véfengdi erfðarétt barna Önnu þar sem þau væru óskilgetin en fyrir dómi var talið að arfleiðslan væri fullgild þar sem Páll hefði samþykkt giftingu Önnu og Hjalta Magnússonar og þau hefðu goldið allar sektir sem þeim bar að greiða.
Þau Árni og Guðrún áttu fjölda barna, þar á meðal Gísla sýslumann á Hlíðarenda, Halldóru biskupsfrú á Hólum, konu Guðbrandar Þorlákssonar, Guðrúnu konu Jóns Björnssonar sýslumanns á Holtastöðum og Grund, Hákon sýslumann á Hóli í Bolungarvík, Dyrhólum, Klofa og loks á Reyni í Mýrdal, Ingibjörgu konu Gísla Þórðarsonar lögmanns og Sæmund sýslumann á Hóli í Bolungarvík.
Heimildir
- Jón Þorkelsson: Saga Magnúsar prúða. Prentuð á kostnað Sigurðar Kristjánssonar, Kaupmannahöfn, 1895.