Íris Róbertsdóttir

Íris Róbertsdóttir (f. 11. janúar 1972) er íslenskur grunnskólakennari og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.[1]

Íris er grunnskólakennari að mennt en hún útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Hún starfaði lengi sem kennari í Hamrasskóla í Vestmannaeyjum og hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006.[2] Íris gekk í Sjálfstæðisflokkinn 16 ára gömul og gegndi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn um árabil og sat m.a. í miðstjórn og var varaþingmaður á kjörtímabilinu 2009-2013.[1]

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018 klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum vegna deilna um hvort halda ætti prófkjör og í kjölfarið gekk Íris til liðs við H-lista Bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey og varð oddviti listans. H-listinn myndaði síðan meirihluta í bæjarstjórn ásamt Eyjalistanum og í kjölfarið varð Íris bæjarstjóri, fyrst kvenna. [3]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 Alþingi, Æviágrip - Íris Róbertsdóttir (skoðað 16. júlí 2019)
  2. Heimaslod.is, „Íris Róbertsdóttir“ (skoðað 16. júlí 2019)
  3. Visir.is, „Erfið reynsla býr til samstöðu“ (skoðað 16. júlí 2019)