Zúismi

Merki Zúista.

Zúismi eða Zuism er íslenskt óvirkt trúfélag. Yfirlýstur tilgangur þess í upphafi var að vera vettvangur til að iðka trú sem byggir á trúarbrögðum hinnar fornu þjóðar Súmera. Deilur og málaferli spunnust um félagið á árunum 2016 til 2024.

Upphaf

Félagið var skráð sem trúfélag árið 2013. Skráðir félagar voru fáir í upphafi en hættu flestir, og á árinu 2015 var félagið meðlimalaust. Þá auglýsti sýslumannsembættið á Norðurlandi eystra eftir forsvarsmönnum félagsins og skoraði á þá að gefa sig fram, annars yrði félagið lagt niður.

Yfirtaka

Hópur sem ekki tengdist stofnendum félagsins skráði sig í félagið, stofnaði nýtt rekstrarfélag og gaf sig fram við sýslumann sem nýir forsvarsmenn. Þegar þeir töldu sig hafa fengið yfirráð yfir félaginu, auglýstu þeir í nóvember 2015, að þeir mundu endurgreiða sóknargjöld þeirra sem væru skráðir í félagið. Fyrir fyrsta desember — eða á nokkrum dögum — skráðu yfir 3.000 manns sig og félagið var orðið eitt það fjölmennasta í landinu.[1]

Um leið samþykkti nýja stjórnin að markmið félagsins væri að hið opinbera myndi fella úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram umfram önnur félög. Félagið setti á nýja heimasíðu sína, að það mundi annast lögbundnar hjónavígsluathafnir, en sú hver athöfn mundi kosta mörghundruð milljarða. [heimild vantar]

Forræðisdeila

Snemma árs 2016 kröfðust upprunalegu stjórnarmennirnir þess að fá félagið afhent aftur og héldu því fram að félagið hefði verið ólöglega afhent nýju stjórninni. Málaferli stóðu í meira en ár, og á meðan voru bankareikningar félagsins frystir með tugum milljóna króna sem söfnuðust inn á þá af sóknargjöldum.

Svo fór að upprunalegu stofnendunum var dæmt forræði fyrir félaginu og fjármunum þess. Þeir lofuðu að standa við fyrirheit yfirtökumanna og endurgreiða sóknargjöldin eins og lofað hefði verið. Einhverjir skráðir félagsmenn gáfu sig fram og fóru fram á að fá endurgreitt og fengu það en sá hópur var lítið brot þeirra sem skráðir voru.

Endalok?

Óvissa var með framtíð félagsins árið 2019 en stjórnarformenn hættu, félagið gat ekki sýnt fram á starfsemi, skilaði ekki ársskýrslu og forsvarsmenn þess, Einar Ágústsson og Ólafur Helgi Þorgrímsson [2] voru dæmdir fyrir fjár- og skattsvik. [3] [4]

Sýslumaður lét stöðva greiðslur til trúfélagsins árið 2019. Það krafðist þess að fá hin vangoldnu sóknargjöld greidd, en árið 2020 var íslenska ríkið sýknað af kröfu félagsins. Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism, sagðist munu slíta félaginu þegar niðurstaða lægi fyrir í dómsmálinu. [5]

Þann 5. mars 2021 var það þó enn á skrá yfir trúfélög og 795 manns ennþá skráðir í það, eða um fjórðungur þess sem mest var.[6] Meðlimir í október árið 2024 voru 430.

Tenglar

Tilvísanir

  1. Yfir þúsund úr þjóðkirkjunni í Zúistafélagið Rúv. Skoðað 19. mars, 2016.
  2. Einn stofnenda Zuism dæmdur til að greiða 143 milljónir vegna skattsvika Vísir, skoðað 15. jan. 2020
  3. Zúistum snarfækkaði eftir að þeir fengu skráningu sem trúfélag Vísir, skoðað 12. febrúar.
  4. Zúista-bræður sakfelldir í landsrétti Rúv, sótt 23. mars 2024
  5. Zúistar fá ekki milljónir króna frá íslenska ríkinu Vísir, skoðað 15. jan 2020.
  6. Skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög 5. mars 2021, skoðað 3. apríl 2021.