Síðasti prestur á Undirfelli var séra Hjörleifur Einarsson, sem gegndi embættinu í 30 ár en sagði af sér árið 1906. Hann var frumkvöðull í æskulýðsstarfi og hafði mikinn áhuga á skólamálum. Árið 1879 var að hans frumkvæði komið á fót kvennaskóla á Undirfelli, einum hinna fyrstu í landinu, og var hann starfræktur þar í nokkur ár. Sonur Hjörleifs var Einar Hjörleifsson Kvaran rithöfundur. Listmálarinn Þórarinn B. Þorláksson var fæddur á Undirfelli, sonur séra Þorláks Stefánssonar.
Núverandi kirkja á Undirfelli er steinsteypt, reist árið 1915 í stað timburkirkju sem brann á annan dag jóla 1913. Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði kirkjuna, sem er óvenjuleg að því leyti að turninn er á öðru framhorni hennar.
Í landi Undirfells er Undirfellsrétt, sem er með stærri fjárréttum landsins og er skilarétt Vatnsdæla og Þingbúa.
Þegar jörðin Undirfell var auglýst til sölu í blöðum 1984 var tekið fram í auglýsingunni að öllum tilboðum frá sjálfstæðismönnum yrði hafnað, svo og framsóknarmönnum sem kosið hefðu þann flokk eftir 1978.[1]