Yfirleitt eru sýndir 10 til 12 rammar á sekúndu í hefðbundinni teiknimynd, en í venjulegri leikinni kvikmynd er venjan 24 rammar á sekúndu. Oftast nægir að notast við 12 ramma (sem nefnast „á tveimur“) til að láta mynd virðast á samfelldri hreyfingu, en ef þarf að sýna snöggar hreyfingar er stundum notast við 24 ramma („á einum“). Fyrir hægari hreyfingar og ódýrari framleiðslu er stundum notast við átta ramma á sekúndu („á þremur“).[1] Þar sem myndin helst stutta stund föst á sjónhimnunni nemur heilinn það sem samfellda atburðarás fremur en röð mynda. Vegna þess að teikna þurfti hvern ramma fyrir sig, var framleiðsla hefðbundinna teiknimynda ólík framleiðslu leikinna mynda þar sem tiltölulega auðvelt er að taka sama atriði upp oftar en einu sinni. Takmörkuð teiknimynd er aðferð til að spara í framleiðslu með því að kvika aðeins lítinn hluta af myndinni og endurnýta eins mikið og hægt er. Fjöldi mynda á sekúndu hættir að skipta máli í nútíma tölvuteiknimyndum þar sem atburðarásin er samfelld breyting stafrænna mynda á milli lykilramma og framleiðslan verður líkari framleiðslu leikinna kvikmynda.
Teiknimyndir koma fyrir sem bæði stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd. Klassískar teiknimyndir notast oft við ýktan skopmyndastíl, manngerð dýr, ofurhetjur og ærslafull atriði. Ýmsir hafa gert tilraunir með að blanda saman teiknimyndum og leiknum myndum frá fyrstu tíð. Með tölvugrafík og raunsæjum þrívíddarteikningum er hægt að setja saman teiknaða mynd og tekna mynd þannig að ekki sjáist munur á til að skapa tæknibrellur. Tölvuteiknimyndir skiptast í tvívíðar teiknimyndir, sem líkjast hefðbundnum teiknimyndum, og þrívíðar teiknimyndir þar sem myndirnar sem hreyfast eru þrívíðir stafrænir hlutir.
Saga
Fyrir tíma kvikmyndanna höfðu menn notast við ýmis brögð til að láta hluti og myndir virðast hreyfast af sjálfsdáðum, með brúðuleikhúsi, skuggaleikhúsi, ýmsum útgáfum af töfralukt, og öðrum aðferðum.[2]
Eiginlegar teiknimyndir, þar sem röð samtengdra mynda er sýnd hratt þannig að myndin virðist hreyfast, komu til sögunnar með snúningsskífum eins og Phénakisticope (1833), Zoetrope (1866), flettibókum (1868) og Praxinoscope (1877). Franski uppfinningamaðurinn Charles-Émile Reynaud þróaði Praxinoscope-vélina þannig að hægt var að varpa lengri myndaröðum á tjald. Árið 1888 fékk hann einkaleyfi á vél sem hann notaði fyrir sýningar sem hann nefndi Théâtre Optique og sýndi allt að 700 handmálaðar myndir í röð. Hreyfimyndin var gerð á glærur og bakgrunnurinn aðskilinn.[3]
Þöglu myndirnar
Þegar eiginleg kvikmyndagerð hófst undir lok 19. aldar voru teiknaðar myndir í fyrstu ekki álitnar henta nýja miðlinum sem átti að sýna raunsæjar lifandi myndir. J. Stuart Blackton hóf að nota stop-motion tækni til að blanda teiknimyndum saman við leiknar kvikmyndir. Kvikmyndin The Haunted Hotel frá 1907 varð vinsæl og lengi talin fyrsta teiknimyndin.[4] Franski skopmyndateiknarinn Émile Cohl gerði svo fyrstu hreinræktuðu teiknimyndina, Fantasmagorie, árið 1908. Cohl teiknaði myndirnar beint á kvikmyndafilmuna. Bandaríski myndasöguhöfundurinn Winsor McCay gerði líka tilraunir með teiknimyndagerð þar sem hann teiknaði hverja mynd fyrir sig á blað í Nemó litli (1911) og Gertie the Dinosaur (1914).[5]
Á 2. áratug 20. aldar varð teiknimyndagerð að iðnaði í Bandaríkjunum.[6] Framleiðandinn John Randolph Bray og kvikarinn Earl Hurd þróuðu persónuna Bobby Bumps fyrir röð stuttra gamanmynda. Þeir fengu einkaleyfi á því sem varð hin hefðbundna framleiðsluaðferð teiknimynda, að teikna hreyfimyndirnar á glærur.[7][8] Fyrsta teiknimyndafígúran sem náði vinsældum í Bandaríkjunum var Kötturinn Felix eftir Pat Sullivan og Otto Messmer árið 1919.[9] Árið 1917 fékk Max Fleischer einkaleyfi[10] á aðferð við gerð teiknimynda sem hann nefndi Rotoscope, þar sem stillum úr leikinni kvikmynd er varpað á blað og teiknarinn teiknar eftir myndunum til að skapa raunsærri hreyfingar.
Árið 1917 gerði ítalsk-argentínski leikstjórinn Quirino Cristiani fyrstu teiknimyndina í fullri lengd, El Apóstol, sem náði miklum vinsældum, en er nú talin glötuð. Hann fylgdi henni eftir árið 1918 með Sin dejar rastros sem var gerð upptæk af stjórnvöldum daginn eftir frumsýninguna.[11] Elsta teiknimyndin í fullri lengd sem hefur varðveist er þýska myndin Die Abenteuer des Prinzen Achmed eftir Lotte Reiniger frá 1927.[12]
Gullöld bandarískra teiknimynda
Stuttmynd Walt Disney frá 1928, Steamboat Willie, markar upphaf gullaldar bandarískra teiknimynda með samhæfðri hljóðrás, sem stóð fram á 7. áratug 20. aldar. Persónurnar Mikki Mús og Mína Mús birtust fyrst í þeirri teiknimynd. Disney stofnaði kvikmyndaverið Walt Disney Animation Studios árið 1923, ásamt bróður sínum, Roy O. Disney. Disney hafði mjög mikil áhrif á teiknimyndagerð um allan heim næstu áratugi, þótt framleiðslan hafi ekki verið stór hluti af heimsframleiðslunni.[13]
Eftir að síðari heimsstyrjöld braust út lokaðist fyrir erlenda markaði svo næstu myndum gekk illa í kvikmyndahúsum. Að lokum voru það aðeins Disney Animation Studios sem fengust við að gera teiknimyndir í fullri lengd. Þaðan komu til dæmis myndirnar Fantasía og Gosi árið 1940. Teiknimyndir voru notaðar í áróður í stríðinu, bæði af Bandaríkjunum (til dæmis Der Fuehrer's Face frá Disney og Private Snafu frá Warner Bros.), Japan (Momotarō: Umi no Shimpei) og Kína (Tiě shàn gōngzhǔ).
Sjónvarpið
Með tilkomu sjónvarpsins fengu stuttar teiknimyndir nýjan miðil. Áður höfðu teiknimyndir verið framleiddar fyrir ótilgreindan áhorfendahóp í kvikmyndahúsum og innihéldu oft ofbeldi og kynferðislegar tilvísanir. Í sjónvarpi voru teiknimyndir fyrst og fremst ætlaðar börnum, eins og teiknimyndasyrpur sem voru sýndar á laugardagsmorgnum. Undir lok 6. áratugarins komu fram nýjar þáttaraðir sem voru þróaðar fyrir sjónvarpið, eins og teiknimyndir Hanna-Barbera Productions (The Flintstones 1960 og Scooby-Doo 1969).
Fyrsta anime-þáttaröðin, Otogi Manga Calendar, hóf göngu sína árið 1961 og næstu ár var uppgangur í teiknimyndagerð í Japan. Evrópsk og japönsk fyrirtæki áttu í samstarfi um framleiðslu á þáttum sem byggðust á vinsælum evrópskum barnabókum, eins og með Barbapabba (1973-1977),[18]Heiðu (1974), Maju býflugu (1975) og Einu sinni var... (1978).[19] Sumar fyrstu japönsku teiknimyndirnar sem sýndar voru á Vesturlöndum voru gagnrýndar fyrir að sýna ofbeldi. Þetta gat stafað af því að vestrænir áhorfendur gerðu ráð fyrir því að allar teiknimyndir væru ætlaðar börnum, sem þessar myndir voru ekki.
Á 8. áratugnum hóf bandaríski teiknarinn Ralph Bakshi að gera myndir fyrir fullorðna áhorfendur eins og Fritz the Cat (1972). Margar af þessum myndum áttu erfitt með að finna dreifingaraðila.[20] Hann náði betri árangri með fantasíumyndum á borð við Wizards (1977) og Hringadróttinssögu (1978) sem notuðust við Rotoscope-tæknina. Breska myndin Flóttinn langi (Watership Down 1978) náði miklum vinsældum þrátt fyrir ofbeldislýsingar. Á sama tíma gerði Sigurður Örn Brynjólfsson fyrstu íslensku teiknimyndina, Þrymskviðu, sem var frumsýnd árið 1980.[21]
Tölvuteiknimyndir
Lengst af á 20. öld höfðu tölvur of takmarkað minni til að hægt væri að nota þær að ráði við hreyfimyndagerð. Elstu tölvuteiknuðu myndirnar sem voru notaðar voru möskvamyndir af þrívíðum hlutum eins og hendi eða geimskipi sem birtust á skjám í vísindaskáldsögumyndum á borð við Futureworld (1976) og Stjörnustríð (1977). Teiknaða stuttmyndin Hunger frá 1973 var ein fyrsta tölvuteiknaða myndin sem notaði myndbræðingu fyrir fylltar rastamyndir, fremur en línuteikningar.[22] Þegar kom fram á 9. áratuginn var algengt að nota tölvur til að sjá um kvikaða grafík fyrir kynningartexta og merki.
Kvikmyndin Tron frá 1982 var ein sú fyrsta sem notaði tölvugerða þrívíddargrafík, og tónlistarmyndband við lag Dire Straits, „Money for Nothing“, notaðist við fyllt þrívíð líkön árið 1985.[23] Nýjar og öflugri tölvur, eins og Silicon Graphics-vélarnar sem komu á markað árið 1981 og Sun Microsystems-vélar frá 1982, voru sérhæfðar fyrir myndvinnslu. Japanska teiknimyndin Golgo 13: The Professional notaði tölvuteiknaða grafík í bland, og fyrsta Disney-myndin sem notaðist við tölvugrafík var Leynilöggumúsin Basil frá 1986. Sama ár var tölvuverið Pixar stofnað upp úr tölvugrafíkdeild Lucasfilm.
Á 10. áratugnum hófst blómaskeið raunsærrar tölvugrafíkur í myndum eins og Terminator 2 (1991) og Júragarðurinn (1993). Disney-myndin Fríða og dýrið frá 1991 notaði blöndu af handteiknuðum persónum og tölvuteiknuðum þrívíðum bakgrunnum. Leikfangasaga frá Disney og Pixar árið 1995, var fyrsta teiknimyndin í fullri lengd sem var að öllu leyti gerð og hreyfð með tölvu.[24] Á sama tíma gerði Disney röð af vinsælum teiknimyndum sem litu út fyrir að vera hefðbundnar (eins og Aladdín og Konungur ljónanna), en voru í raun að miklu leyti gerðar með aðstoð tölvu.[25]
Vinsældir tvívíðra teiknimynda frá Disney á 10. áratugnum voru þvílíkar að talað var um Disney-endurreisnina á þeim tíma. Myndir sem fylgdu í kjölfarið í upphafi 21. aldar gengu mun ver í kvikmyndahúsum, á meðan þrívíðar teiknimyndir frá Pixar og DreamWorks, eins og Leitin að Nemó (2003) og Shrek (2001), slógu margar í gegn. Disney náði aftur vopnum sínum með þrívíðu teiknimyndinni Frosinn (2013). Framtíð teiknimynda í fullri lengd virtist því vera þrívíð.
Japanskir barnaþættir voru sýndir sjónvarpi víða í Evrópu frá 9. áratugnum, eftir vinsældir japansk-evrópskra samstarfsverkefna. Þættir eins og Sanpei, Sailor Moon, Pokémon og Dragon Ball Z ruddu brautina fyrir vinsældir anime-mynda og -þátta fyrir fullorðna áhorfendur.[27] Teiknimyndir í fullri lengd eins og Akira (1988) og þættir eins og Cowboy Bebop (1998) urðu költmyndir á Vesturlöndum. Japanskar teiknimyndir slógu svo í gegn á 21. öld með myndum Studio Ghibli eins og Chihiro og álögin (2001) sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta teiknimynd í fullri lengd. Margar japanskar teiknimyndir og sjónvarpsþættir ætlaðir fullorðnum hafa verið með vinsælustu teiknimyndum heims á 21. öld og farið í dreifingu á bæði sérhæfðum og almennum streymisveitum.
Framleiðsla
Framleiðsla teiknimyndar af einhverri lengd (lengri en nokkrar sekúndur) hefur þróast sem tegund kvikmyndagerðar með nokkur sérkenni.[28] Leiknar kvikmyndir og teiknimyndir eiga það sameiginlegt að vera vinnuaflsfrekar og dýrar í framleiðslu.[29]
Helsti munurinn er að í framleiðslu myndarinnar er jaðarkostnaður hverrar töku hærri fyrir teiknimyndir en leiknar kvikmyndir.[30] Þegar búið er að stilla upp fyrir aðaltökur leikinnar myndar er tiltölulega auðvelt fyrir leikstjóra að biðja um eina töku í viðbót, en í teiknimynd þarf teymi kvikara að útfæra hverja töku (þótt það sé orðið mun ódýrara með tilkomu tölvutækninnar).[31] Það er jafnframt mjög dýrt fyrir kvikmyndaverið að framleiða tökur sem síðan er sleppt úr endanlegri mynd.[32] Frá 4. áratugnum hafa teiknimyndaver haft sögudeildir sem útfæra hvert atriði myndarinnar á söguborð, sem framleiðsluteymi myndarinnar þarf að samþykkja áður en kvikararnir hefjast handa við endanlega útfærslu.[33] Söguborð eru líka notuð í leiknum kvikmyndum, en þær hafa meira frelsi til að víkja frá þeim, til dæmis með spuna á tökustað.[34]
Annað vandamál sem einkennir framleiðslu teiknimynda er krafan um að viðhalda samræmi frá upphafi til enda, jafnvel fyrir kvikmyndir í fullri lengd með stór teymi teiknara. Líkt og aðrir listamenn hafa kvikarar persónulegan teiknistíl, en þurfa að beygja sig undir það útlit sem valið hefur verið fyrir myndina.[35] Frá því snemma á 9. áratugnum hafa framleiðsluteymi fyrir teiknimyndir í fullri lengd talið 500-600 manns, og þar af eru 50-70 kvikarar. Samræming útlits á milli slíks fjölda er erfið.[36] Þetta er oftast leyst með því að láta minna teymi listamanna hanna útlit og litaspjald fyrir myndina áður en útfærsla hefst. Þeir hanna hverja persónu með módelblöðum sem sýna ólík svipbrigði og stellingar frá ólíkum sjónarhornum.[37][38] Áður var algengt að gerð væru þrívíð módel úr leir eða gifsi svo kvikarar ættu auðveldara með að sjá persónuna frá ólíkum sjónarhornum.[39][37]
Ólíkt leiknum kvikmyndum, voru teiknimyndir oftast fullþróaðar með söguborðinu og listamennirnir sem unnu að því skráðir höfundar myndarinnar.[40] Snemma á 7. áratug 20. aldar fóru teiknimyndaverin að ráða handritshöfunda og seint á 9. áratugnum voru kvikmyndahandrit orðin almenn í teiknimyndagerð.
Áður en sérstakur teiknimyndaflokkur var stofnaður sem hluti af Óskarsverðlaununum náði aðeins ein mynd þeim árangri að vera tilnefnd í flokknum besta myndin: Fríða og Dýrið árið 1991. Seinna hafa myndirnar Upp og Leikfangasaga 3 verið tilnefndar í sama flokki. Tvær blandaðar leiknar/teiknaðar myndir höfðu líka verið tilnefndar til nokkurra Óskarsverðlauna: Mary Poppins 1964 og Hver skellti skuldinni á Kalla kanínu? 1988. Teiknimyndir höfðu oft áður unnið verðlaun í flokkum á borð við „besta frumsamda lag“ (til dæmis Gosi 1940, Litla hafmeyjan 1989 og Pocahontas 1995) og „besta frumsamda tónlist“ (til dæmis Dúmbó 1941, Aladdín 1992 og Konungur ljónanna 1994).
Fyrsta teiknimyndin í fullri lengd sem vann Óskarsverðlaun í þeim flokki 2001 var Shrek frá DreamWorks. Meðal höfunda sem hafa unnið verðlaunin oftar en einu sinni eru Hayao Miyazaki, Andrew Stanton, Pete Docter, Brad Bird og Jonas Rivera. Pixar er það framleiðslufyrirtæki sem oftast hefur unnið verðlaunin, en þar á eftir koma DreamWorks og Walt Disney Animation Studios.[41]
↑Малюкова Л., Венжер Н. (2006). Русская—советская—российская // Энциклопедия отечественной мультипликации/ Составление С. В. Капкова. Москва: Алгоритм. bls. 13–41. ISBN978-5-9265-0319-4.
↑Erickson, Hal (2005). Television Cartoon Shows: An Illustrated Encyclopedia, 1949 Through 2003 (2nd. útgáfa). McFarland & Co. bls. 112. ISBN978-1476665993.
↑Clements, Jonathan; McCarthy, Helen (1. nóvember 2006). The Anime Encyclopedia: A Guide to Japanese Animation Since 1917, Revised and Expanded Edition (enska). Berkeley, California, United States of America: Stone Bridge Press. bls. 456. ISBN978-1933330105. „an explicitly educational series“
Beck, Jerry (2004). Animation Art: From Pencil to Pixel, the History of Cartoon, Anime & CGI. Fulhamm London: Flame Tree Publishing. ISBN978-1-84451-140-2.