Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti (einnig kallaður „Yngismeyjardagur“) er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu.[1] Á Íslandi ber sumardaginn fyrsta alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu frá 19.-25. apríl (það er fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl). Í Noregi var sumardagurinn fyrsti festur við 14. apríl samkvæmt prímstafareikningi í gamla stíl og hélst sú dagsetning eftir að nýi stíll var tekinn upp.[2] Þar var þessi dagur jafnframt fardagur. Sumardagurinn fyrsti var lengi messudagur, eða til 1744. Til eru heimildir um sumargjafir á Íslandi á þessum degi allt frá 16. öld (til samanburðar þá tíðkaðist ekki að gefa jólagjafir fyrr en frá síðari hluta 19. aldar).[3] Sumardagurinn fyrsti var gerður að lögbundnum frídegi á Íslandi með lögum nr. 88, 24. desember 1971.[4]

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur „frjósi saman“ boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna: hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Gæsalappir

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.“

— Árni Björnsson (1977). Saga daganna 2. útg. s. 50..

Hvað átt er við með „góðu sumri“ í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

Hátíðir á sumardaginn fyrsta

Í seinni tíð hefur skátahreyfingin haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum. Einnig hefur það færst í vöxt að bæjarfélög haldi ýmiskonar hátíðarhöld, oftast fyrir fjölskylduhátíðir með áherslu á börn. Á stærri stöðum eins og Reykjavík er þeim skipt niður og haldnar hverfishátíðir.

Sumardagurinn fyrsti á næstu árum

  • 2025 - 24. apríl
  • 2026 - 23. apríl
  • 2027 - 22. apríl
  • 2028 - 20. apríl

Tilvísanir

  1. „Hvenær er sumardagurinn fyrsti og er hann vel valinn sem upphaf sumarsins?“. Vísindavefurinn.
  2. „Tímasetning sumardagsins fyrsta“. Veður.is. Sótt 25.4.2024.
  3. „Jólagjafir“. Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 25.4.2024.
  4. „Lög um 40 stunda vinnuviku, 1971 nr. 88 24. desember“. Alþingi.is. Sótt 25.4.2024.

Tengt efni

Tenglar

  • Veðurkort frá Veðurstofu Íslands sem sýnir veðrið á sumardaginn fyrsta frá árinu 2000 til 2010