Strútsfoss er í Villingadal sem er inn af Suðurdal í Fljótsdal
Fossinn er tvískiptur, neðri fossinn er um 100 metra hár og efri fossinn um 20 metrar. Neðan við fossinn rennur Strútsá í Strútsgili. Talið er að fossinn dragi nafn sitt af strýtulaga klettadröngum í gilinu. Strútsgil er samansett af basalthrauni, setlögum og má þar finna mikið af rauðum og gulbrúnum millilögum[1].
Gönguleiðin
Gengið er frá bílastæði í landi Sturluflatar, innstabæ í Suðurdal í Fljótsdal. Fossinn sést ekki vel fyrr en komið er býsna langt inn Villingadal. Hægt er að komast alveg upp að fossinum þegar að lítið vatn er í Strútsánni síðsumars. Þá þarf að vaða ánna nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Einnig er hægt að ganga upp á brúnir norðan við fossinn[1].
Gönguleiðin er um 8,5 kílómetrar og 229 metra hækkun. Hún er nokkuð auðveld, fremur aflíðandi og greinileg[2][1].