Steingrímur Jóhannesson (14. júní 1973 – 1. mars 2012) var íslenskur knattspyrnumaður sem fæddur var í Vestmannaeyjum. Um leið og Steingrímur hafði aldur til hóf hann að leika knattspyrnu og síðar handknattleik með Íþróttafélaginu Þór. Þá stundaði Steingrímur einnig frjálsar íþróttir með Ungmennafélaginu Óðni. Fljótlega var ljóst að ómældir hæfileikar og fjölhæfni bjuggu í drengnum.
Knattspyrnan varð fyrir valinu og þar bar Steingrímur af. Hann hóf að leika með meistaraflokki ÍBV á unglingsaldri og lék með félaginu óslitið í rúman áratug.
Knattspyrnuferillinn
Steingrímur spilaði lengst af ferilsins með ÍBV og varð tvívegis Íslandsmeistari með ÍBV, 1997 og 1998 þegar ÍBV sigraði tvöfalt.
Hann var markakóngur efstu deildar árin 1998 og 1999.
Litlu munaði að hann endurtæki leikinn með Fylki aðeins fjórum árum seinna þegar aðeins tveimur stigum munaði síðan að hann yrði einnig Íslandsmeistari með Fylki árið 2002 en það ár varð hann bikarmeistari með Fylki.
Tímabilið eftir ferilinn
Síðar lék Steingrímur með liði Selfoss og þá lá leiðin aftur til Vestmannaeyja þar sem Steingrímur lék með ÍBV og KFS. Steingrímur lék samtals 221 leik í efstu deild og skoraði í þeim leikjum 81 mark. Þá lék hann einn A-landsleik og þrjá leiki fyrir U-21-landsliðið.
Veikindi
Steingrímur greindist með krabbamein árið 2011 hann lést af völdum þess 1. mars 2012 aðeins 38 ára að aldri.
Tilvísanir
Heimildir
- Minningargrein ÍBV Íþróttafélags í morgunblaðinu 12. mars 2012
- http://ksi.is