Smiður Andrésson

Smiður Andrésson (dáinn 8. júlí 1362) var hirðstjóri á Íslandi á 14. öld. Eyfirðingar felldu hann og nokkra menn hans í Grundarbardaga.

Smiður og var að öllum líkindum norskur að ætt, bróðir eða ættingi Bótólfs Andréssonar sem áður hafði verið hirðstjóri, því að seinna er þess getið að Hrafn Bótólfsson lögmaður hafi verið grafinn á Hólum hjá Smiði frænda sínum. Smiður kom til landsins 1361 með Grindavíkurskipi og hafði tekið landið á leigu til þriggja ára með sköttum og skyldum. Hann virðist fljótt hafa dregist inn í deilur hérlendis. Seinni alda sagnir bera honum heldur illa söguna, Hann hafi þótt ganga hart fram í skattheimtu og er sagður hafa verið svallgjarn og djarfur til kvenna.

Haustið 1361 risu norðlenskir prestar undir forystu séra Þorsteins Hallssonar á Hrafnagili upp á móti Jóni skalla Eiríkssyni Hólabiskupi og neituðu að viðurkenna hann sem yfirboðara sinn. Sáttafundur var á Hólum 14. apríl 1362 og var Smiður þar en ekki varð af sáttum. Um sumarið eftir Alþingi reið Smiður norður í Eyjafjörð með hóp manna, þar á meðal lögmennina báða, Jón skráveifu Guttormsson og Orm Snorrason, og ætlaði að kveða niður mótþróa Eyfirðinga. Séra Þorsteinn hafði þá siglt til Noregs með Þorsteini Eyjólfssyni á Urðum og Ólafi Péturssyni í Gnúpufelli, en Smiður kom á Grund í Eyjafirði daginn fyrir Seljumannamessu. Þar bjó þá Grundar-Helga, móðir Björns Jórsalafara.

Sagnir, skráðar mörgum öldum seinna, segja að Helga hafi veitt gestunum vel og hafi þeir orðið mjög ölvaðir. Smiður á að hafa heimtað konu í sæng til sín um kvöldið og menn hans einnig, en Helga húsfreyja sagði stúlkum þeim sem þjónuðu mönnunum til sængur að snúa við annarri skálminni á brókum þeirra svo þeim yrði tafsamt að klæða sig. En á meðan veislan stóð hafði hún látið sendimenn sína fara um sveitina og safna saman vopnfærum mönnum. Samtímaheimildir segja þó að Eyfirðingar hafi safnast saman þegar þeir fréttu af ferðum Smiðs og förunauta hans og hitt þá fyrir á Grund. Komu þeir að Grund snemma morguns, réðust til inngöngu og sló í bardaga. Ein heimild segir að "fortogi" þeirra hafi verið bróðir Helgu, Gunnar Pétursson sem þá bjó á Hólum í Eyjafirði.

Smiður var vel vígur og er sagður hafa varist fimlega þótt drukkinn væri, stökk upp á skálabitana og hljóp á milli þeirra. Á endanum gat þó einhver komið lagi á háls hans og segir þjóðsagan að höfuðið hafi lent í mjólkurtrogi húsfreyjunnar, en Helga hefði ekki viljað láta hella mjólkinni, heldur sagt „að saman skyldi slá öllu til grautargerðar“. Jón skráveifa féll einnig og fimm eða sex aðrir af mönnum Smiðs, en sex úr liði Eyfirðinga.

Rithöfundurinn Jón Trausti lýsir Smiði þannig í skáldsögu sinni: Veislan á Grund:

Smiður Andrésson bar af mönnum sínum, ekki svo mjög að klæðaburði, heldur að vexti og framgöngu. Hann var hvasseygður og svipmikill, ekki fríður að vísu, en vel limaður og allur vel á sig kominn. Seinn var hann til svara, og var sem hann vægi orðin. Andlitið var þreytulegt, mótað af hörku og viljamagni, ástríðum og ofnautn. Allur minnti hann meira á sjóræningja en hirðstjóra á landi og handhafa konungsvaldsins.

Heimildir

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • "Auðbrekkubréf og Vatnsfjarðarerfðir" Saga, tímarit Sögufélags 1962.

Tengt efni

  • Veislan á Grund; af snerpu.is“.


Fyrirrennari:
Andrés Gíslason
Árni Þórðarson
Jón Guttormsson
Þorsteinn Eyjólfsson
Hirðstjóri
(13611362)
Eftirmaður:
Þorsteinn Eyjólfsson
Ólafur Pétursson