Hátíðarljóðið „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ var samið í tilefni skólahátíðar sem haldin var 31. maí og 1. júní 1930 á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri. Þar var fagnað fimmtíu ára afmælishátíð Möðruvallarskóla, en það var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og ætlað í upphafi að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir brunann á Möðruvöllum var skólinn fluttur til Akureyrar og nafni hans var breytt í „Gagnfræðaskólinn á Akureyri“. Með lögum frá Alþingi árið 1930 fékk Gagnfræðaskólinn á Akureyri full réttindi menntaskóla og nefnist Menntaskólinn á Akureyri. Nýjum lögum um menntaskólaréttindi var því einnig fagnað á skólahátíðinni 1930.
Sigurður Guðmundsson skólameistari MA sem stýrði undirbúningi skólahátíðarinnar bað Davíð að semja veglegt hátíðarljóð í tilefninu. Ljóðið „Gagnfræðaskóli Norðurlands“ var prentað í dagskrá hátíðarhaldanna en var aldrei birt í ljóðabókum Davíðs. Ljóðið er í fimm hlutum og var sá síðasti strax gerður að skólasöng MA eftir frumflutninginn 1. júní 1930. Að jafnaði eru einungis fyrsta og síðasta erindið sungin en við skólaslit eru öll erindin sungin.
Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri
Undir skólans menntamerki
mætast vinir enn í dag.
Sýnum öll í vilja og verki
vöxt og trú og bræðralag.
Forna dáð er fremd að rækja.
Fagrir draumar rætast enn.
Heill sé þeim, sem hingað sækja,
höldum saman, Norðanmenn.
Enn er liðinn langur vetur,
loftin blá og jörðin græn.
Hefji hver sem hafið getur
huga sinn í þökk og bæn.
Svo skal lofa liðna daga
að líta fram og stefna hátt.
Þá fær Íslands unga saga
æðra líf og nýjan mátt.
Allt skal lúta einum vilja.
Allt skal muna þennan dag.
Allir sem við skólann skilja
skulu syngja þetta lag.
Sýnum öll á sjó og landi
sigurþrek hins vitra manns.
Sýnum það að afl og andi
eigi skóla norðanlands.
Skólasöngurinn loks útgefinn
Starfsemi Kórs Menntaskólans á Akureyri hefur verið mismikil í gegnum tíðina. Skólasöngurinn hefur verið fastur liður á dagskrá og allrasíðustu ár hefur hann stundum verið sunginn í fjórum röddum. Árið 2001 var söngurinn gefinn út á diski þar sem kórinn flutti úrval íslenskra sönglaga undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar.