Skip er samgöngutæki til notkunar á sjó eða vatni.
Skip eru knúin áfram með mismunandi hætti. Þó má segja að þrjár meginflokka sé að ræða, Skip knúin áfram með handafli (árar), vindafli (segl) eða vélarafli. Einnig eru dæmi um að skip falli ekki undir þessa flokka, heldur fylgi þau sjávarstraumi eða vatnsrennsli í ám og fljótum. Það má deila um hvort slík samgöngutæki falli undir skilgreiningu orðsins skip.
Handafl eða áraskip eru til enn þann dag í dag. Þó má segja að í nútíðinni eigi þetta fyrst og fremst um árabáta. En fyrr á öldum og reyndar allt til tíma vélvæðingarinnar þá voru dæmi um skip sem voru knúin ýmist með bæði árum og vindi. Gott dæmi um það eru víkingaskip og fyrir þann tíma GaleiðurRómverja.
Vindafl eða seglskip voru vinsæl í gegnum aldirnar, þó má segja að með vélvæðingunni hafi þau orðið undir í samkeppninni. Þó eru þau mikið notuð enn þann dag í dag og þá sérstaklega smærri skip og bátar. Einkum er þó um að ræða skemmtibáta og siglingakeppnir á seglbátum eru vinsæl iðja um heim allan. Hvað varðar stærri seglskip þá eru þau ekki mikið notuð í dag, helst er um að ræða að þau séu notuð til þjálfunar eða hafa verið varðveitt til minningar um sögu þeirra.
Skip eru flokkuð eftir notkun og stærð. Gildir sú almenna regla að nafn flokksins ræðst af notkunarheitinu sem síðað er skeytt fyrir framan orðið skip. Stærðin er síðan oftast notuð til að skilgreina á milli skips og báts. Þó ber að nefna að til eru undantekningar frá þessari reglu þar sem kafbátur getur verið mun stærri heldur en hefðbundið fiskiskip.
Helstu flokkar skipa eru:
Farþegaskip
Farþegaskip kallast þau skip sem notuð eru til farþegaflutninga. Helstu undirflokkar eru ferjur sem venjulega eru notaðar til styttri vegalengda, og almenn farþegaskip sem notuð eru til lengri ferða, helsti munurinn er gistiaðstaða um borð í skipinu. Skemmtiferðaskip ferðast um heimsins höf og bjóða farþegum upp á úrvals gistingu og afþreyingu um borð, auk þess að leggjast í höfn á ferðamannastöðum.
Síðan er þau skip sem notuð eru í hernaði, en þau kallast einu nafni herskip. Helstu undirflokkar eru flugmóðurskip, orrustuskip, orrustubeitiskip, þungt beitiskip, beitiskip, tundurspillir, freygátur af ýmsum gerðum, kafbátar og strandvarnarskip. Einnig eru til aðrir flokkar sem eiga fyrst og fremst við um smærri skip, tundurskeytabátar, fylgdarskip, (stundum kallað korvetta). Þess ber að geta að bæði freygátur og tundurspillar eru stundum sett undir þennan flokk en hefðin er sú að þá er orðinu „escort“ venjulega skeytt ýmist fyrir framan eða aftan flokksheiti viðkomandi skips, „Destroyer Escort“ eða „Escort Destroyer“, landgönguprammar, bæði hefðbundnir og einnig loftpúðaskip. Einnig eru til frekari skilgreiningar á undirflokkunum eftir því hver megin tilgangur viðkomandi skips er, hraði skipsins osf. Hafa ber í huga að skilgreiningar á flokkum hafa breyst í gegnum tíðina, hefðin er þó sú að flokka herskip eftir stærð skipsins og hversu öflug og mörg vopn það ber.